Hlýnun sjávar eykur líkur á farsóttum í sjávardýrum

lobsterHækkandi hitastig sjávar eykur líkur á smitsjúkdómum í sjávarlífverum og stuðlar jafnvel að hruni stofna, ef marka má tvær nýjar rannsóknir Cornell Háskólans í Bandaríkjunum. Í annarri rannsókninni voru áhrif hlýnunar sjávar á krossfiska við vesturströnd Bandaríkjanna skoðuð og kom þar fram að hægt var að rekja dauða um 90% krossfiskastofna á svæðinu frá Mexíkó að Alaska til hitabylgju á árunum 2013-2014. Í hinni rannsókninni kom fram að hitastig getur haft áhrif á farsóttir í stofnum skjaldbaka, kórala, humars, skelfisks og marhálms. Þannig er Ameríkuhumar mjög viðkvæmur fyrir breytingum á hitastigi, en humarinn er mikilvægur fyrir efnahag Maine-ríkis nyrst á austurströnd Bandaríkjanna. Erfitt er að koma í veg fyrir smit vegna hækkandi hitastigs, en höfundar rannsóknanna benda á mikilvægi þess að flytja ekki lífverur milli svæða, auk þess sem fylgjast þarf með sveiflum í hitastigi til að geta séð hitabylgjur fyrir.
(Sjá frétt Science Daily 16. febrúar).

Rafbílar draga úr hitamyndun í stórborgum

EV_Beijing_160Rafbílar gefa frá sér um 80% minni hita en hefðbundnir bensínbílar og geta því dregið úr hitamyndun í stórborgum samkvæmt nýrri skýrslu um falinn ávinning rafbíla sem Háskólinn í Michigan gaf út á dögunum. Svokallaðar hitaeyjar (e. urban heat islands) myndast iðulega á sumrin í þéttbýlustu hlutum stórborga og hafa slíkar hitaeyjar m.a. verið til vandræða í Peking. Hitabylgjur hafa í för með sér aukinn heilbrigðiskostnað og hækkaða dánartíðni og í því sambandi getur hækkun hitastigs um 1°C skipt sköpum. Í umræddri skýrslu kemur fram að rafbílavæðing Pekingborgar myndi lækka hitastig í hitabylgjum um 1°C, en við það myndi orkunýting vegna loftræstingar minnka um 14,4 milljónir kWh og dregið yrði úr koltvísýringslosun um 11.779 tonn á dag. Rafbílar geta þannig stuðlað að bættum lífsgæðum íbúa í stórborgum.
(Sjá frétt ENN í dag).