Nissan Leaf umhverfisvænstur að mati Svía

IMG_7867 copyRafbíllinn Nissan Leaf er umhverfisvænsti bíllinn á sænskum markaði að mati dómnefndar samtakanna Gröna bilister. Samtals voru 35 tegundir bíla tilnefndar í tveimur flokkum, annars vegar sem besti bíllinn fyrir fólk með venjulegar tekjur og hins vegar sem besti fyrirtækjabíllinn. Nissan Leaf stóð uppi sem sigurvegari í báðum flokkum, en í umsögn dómnefndar kemur m.a. fram að þetta sé mest seldi rafbíll í heimi, að drægni 2016-árgerðarinnar sé meira en áður og dugi nú í flestar ferðir, að bíllinn fái hæstu mögulegu einkunn fyrir öryggi og sé talsvert ódýrari en keppinautarnir. Í umsögn um fyrirtækjabíla kemur einnig fram að Nissan Leaf hafi meiri markaðslega þýðingu en flestir keppinautanna, þar sem hann sé auðþekktur frá hefðbundnum bílum. Þegar úrslitin voru kynnt minnti Johanna Grant, formaður Gröna bilister, á að umhverfisvænsti bílstjórinn sitji ekki alltaf í umhverfisvænsta bílnum, því að besti kosturinn sé að ferðast á hjóli eða í lest, sé þess kostur.
(Sjá fréttatilkynningu Gröna bilister 1. febrúar).

90 nýjar hleðslustöðvar fyrir COP21 í París

full_29369Bílaframleiðandinn Renault-Nissan ætlar að setja upp 90 nýjar hleðslustöðvar fyrir rafbíla í París áður en loftslagsráðstefnan COP21 hefst þar um mánaðarmótin. Verkið er unnið í samvinnu við borgaryfirvöld í París og orkufyrirtækið Schneider Electric, en bílaframleiðandinn mun útvega 200 rafbíla af gerðinni Nissan LEAF og Renault ZOE til að flytja fulltrúa á ráðstefnunni á milli staða. Gert er ráð fyrir að þessir bílar leggi samtals að baki rúma 400.000 km á þeim tveim vikum sem ráðstefnan stendur. Carlos Ghosn, forstjóri Renault-Nissan, hefur haft á orði að uppbygging innviða fyrir rafbíla sé skylduverkefni allra ríkja og borga sem taka hlutverk sitt í umhverfismálum alvarlega.
(Sjá frétt EDIE í dag).

Flestir rafbílar skráðir í Bandaríkjunum

tesla_160Um 41% allra rafbíla í heiminum eru skráðir í Bandaríkjunum, en ótrúleg aukning hefur verið í sölu slíkra bíla síðan Nissan Leaf og Chevrolet Volt voru settir á markað vestra árið 2010. Þá hefur drægni Tesla bílanna haft mikil áhrif á markaðinn og aukið trú fólks á getu rafbíla til að koma í staðinn fyrir hefðbundna bíla. Í árslok 2014 voru um 712.000 rafbílar skráðir í heiminum, þar af um 290.000 í Bandaríkjunum. Japan er í öðru sæti hvað þetta varðar og Kína í því þriðja. Markaðsgreiningar benda til að Bandaríkin muni leiða rafbílavæðinguna næstu 5 ár en eftir það er talið líklegt að Evrópa verði stærsti markaðurinn, þar sem stefnumótun Evrópuríkja er hagstæðari fyrir rafbílaeigendur, m.a. vegna kolefnisskatta og niðurgreiðslna fyrir vistvæna bíla.
(Sjá frétt ENN 21. apríl).

99.999 Nissan Leaf seldir

Amy Nissan LeafÍ síðustu viku seldist 99.999. rafbíllinn af gerðinni Nissan Leaf. Kaupandinn var Amy Eichenberger, 47 ára arkítekt frá Charlottesville í Virginíufylki í Bandaríkjunum. Með þessu er ljóst að Nissan Leaf er orðinn söluhæsti rafbíllinn á heimsvísu frá upphafi. Takmörkuð drægni rafbíla veldur mörgum bílakaupendum áhyggjum, en Amy kveðst ekki hafa viljað láta slíkar áhyggjur verða til þess að hún missti af framsýnasta valkostinum á markaðnum, enda dygði bíllinn henni í 98% tilfella.
(Sjá frétt á Hybridcars.com 19. janúar).

Nissan Leaf söluhæsti bíllinn í Noregi í október

Nissan Leaf NORafbíllinn Nissan Leaf var söluhæsti fólksbíllinn í Noregi í október. Þá seldust 716 slíkir bílar, eða sem nemur 5,6% af allri bílasölu í landinu. Þetta var annar mánuðurinn í röð þar sem rafbíll er efstur á sölulistanum, en í september var sportbíllinn Tesla S á toppnum með 616 selda bíla. Markaðshlutdeild Nissan Leaf er 3,2% það sem af er árinu og hafa aðeins þrjár bílategundir selst betur. Norðmenn virðast vera í broddi fylkingar í rafbílavæðingunni, en það er m.a. rakið til ríkulegra niðurgreiðslna, niðurfellingar bílastæðagjalda, ókeypis aðgangs að hleðslustöðvum, undanþágu frá vegatollum og aðgangs að strætisvagnaakreinum.
(Sjá frétt Reuters 1. nóvember).

Nissan selur 35000. rafbílinn vestra

Nissan LeafNú hafa 35.000 rafbílar af gerðinni Nissan Leaf selst í Bandaríkjunum. Þessi áfangi náðist í síðustu viku, rétt fyrir „tengladaginn“ (e. National Plug In Day) sem haldinn var hátíðlegur vestanhafs um helgina. Söluaukningin frá fyrra ári er 317%, sem helgast væntanlega m.a. af því að farið var að framleiða bílana í Bandaríkjunum, auk þess sem verðið á þeim lækkaði. Aukin umhverfisvitund er ekki sögð helst ástæða þess að fólk vestra velur Nissan Leaf, heldur hitt hversu ódýr bíllinn er í rekstri, kraftmikill og skemmtilegur í akstri.
(Sjá frétt á HybridCars.com 27. september).