Köfnunarefnismengun vaxandi vandamál

140513092537-largeKöfnunarefnissambönd eiga stóran þátt í mengun vatns og lofts og stuðla þannig að aukinni tíðni sjúkdóma á borð við astma og krabbamein. Þetta kom fram í rannsókn Potsdam stofnunarinnar sem sagt er frá í maíhefti Nature Communications. Um helmingur þess köfnunarefnis sem notað er í tilbúinn áburð skilar sér ekki í jarðveginn, en berst þess í stað út í umhverfið með vindi og vatni. Notkun köfnunarefnisáburðar er talin nauðsynleg í fæðuframleiðslu en köfnunarefnissambönd geta valdið auknu svifryki, leitt til ósonmengunar við yfirborð jarðar og komið ójafnvægi á vistkerfi vatna. Talið er að tjón vegna köfnunarefnismengunar í Evrópu nemi um 1-4% af þjóðarframleiðslu. Gera má ráð fyrir að mengun af völdum köfnunarefnis aukist um 20% fram til ársins 2050 ef ekkert er að gert, en með réttum viðbrögðum væri hægt að minnka hana um helming. Til þess þurfa bændur að byggja áburðarskammta á jarðvegsmælingum og nýta búfjáráburð í auknum mæli. Þá þurfa neytendur að draga úr kjötneyslu og sóun matvæla.
(Sjá frétt Science Daily 13. maí).

Enn skýrari tengsl milli skordýraeiturs og skyndidauða býflugnabúa

BýflugudauðiNý rannsókn vísindamanna við Harvard Lýðheilsuháskólann styrkir fyrri vísbendingar um þátt neónikótínoíða í skyndidauða býflugnabúa (e. colony collapse disorder (CCD)). Á síðasta ári sýndi þessi sami hópur fram á fylgni milli notkunar skordýraeitursins imídaklópríð og skyndidauða býflugnabúa, en í ár var rannsóknin endurtekin með áherslu á klóþíanídín, en bæði efnin innihalda neónikótínoíð. Skyndidauði af völdum þessara efna virðist stafa af því að flugurnar yfirgefi hýði sitt á veturna og deyi úr kulda. Fyrri rannsóknir á tengslum skordýraeiturs og skyndidauða hafa bent til að há dánartíðni orsakist af minnkandi sýklamótstöðu, en í rannsókn Harvard kom fram að sýklamótstaða samanburðarhóps var sambærileg því sem gerðist í tilraunahópnum. Því þykir ljóst að neónikótínoíð hafi einnig önnur líffræðileg áhrif, ekki síst á taugakerfi flugnanna. Frá árinu 2006 hefur skyndidauði býflugnabúa orðið sífellt algengari. Býflugur gegna lykilhlutverki í vistkerfum jarðar og því afar brýnt að finna orsakir dauðans.
(Sjá frétt Science Daily 9. maí).

Býfluguvænn lífstíll

byflugurÁætlað er að um 12 af þeim 206 býflugna- og humlutegundum sem fundist hafa í Noregi séu ekki lengur til staðar í náttúrunni. Býflugur leika afar stórt hlutverk í vistkerfum jarðar með því að sjá um frævun plantna, en talið er að um 9,5% af landbúnaðarframleiðslu heimsins séu háð þessari þjónustu. Í ljósi þessa hafa Umhverfisstofnun Noregs (Miljødirektoratet) og Norska garðyrkjufélagið (Hageselskapet) hleypt af stokkunum átakinu „Suðandi garðar“ (n.summende hager), sem kynnt var í gær. Verkefnið hefur það að markmiði að sýna íbúum hverju þeir geti breytt til að bjarga býflugum. Birtir eru listar yfir býfluguvænar plöntur og runna, varað við notkun skordýraeiturs og sett fram ráð um það hvernig byggja megi upp býfluguhótel og hirða garða að öðru leyti þannig að þeir verði meira aðlaðandi fyrir skordýr. Verkefnið hefur sína eigin Fésbókarsíðu.
(Sjá frétt á heimasíðu Miljødirektoratet í gær).

Hormónaraskandi efni hafa áhrif á afkomu fugla

fossbuiHormónaraskandi efni hafa áhrif á þróun og afkomu fugla með búsvæði við ár sem renna nálægt þéttbýlisstöðum. Þetta kemur fram í nýrri rannsókn á fuglinum fossbúa í Suður-Wales. Margar rannsóknir hafa verið gerðar á áhrifum hórmónaraskandi efna í fráveituvatni á afkomu fiskstofna, en minna hefur verið rýnt í áhrif á fugla. Í rannsókninni á fossbúunum kom í ljós að ungar fugla sem náðu í fæðu úr ám þéttbýlissvæða voru minni en á öðrum búsvæðum, auk þess sem hlutfall kvenkyns fugla var hærra. Hormónaraskandi efni berast í fráveituvatn m.a. úr lyfjum og fæði íbúa.
(Sjá frétt ENN í dag).

Lífræn flúorsambönd leka frá æfingasvæðum slökkviliða

UntitledVerulegt magn lífrænna flúorsambanda hefur fundist í drykkjarvatni og í fiskum á svæðum nálægt æfingasvæðum slökkviliða í Svíþjóð. Í rannsóknarverkefninu Re-Path á vegum sænska fyrirtækisins IVL kom í ljós að flúorsambandið PFOS (perflúoroktýlsúlfónat), sem notað var í slökkvifroðu á 8. og 9. áratug síðustu aldar, hefur borist í yfirborðsvatn í grennd við æfingasvæði slökkviliða. Í sveitarfélaginu Ronneby var vatnsbóli lokað af þessum sökum, enda er efnið talið vera hormónaraskandi, krabbameinsvaldandi og geta valdið lifrarbilun. PFOS hefur einnig fundist í fiski í stöðuvötnum í kringum Stokkhólm, og var styrkur efnisins í mörgum tilfellum langt yfir leyfilegum mörkum Evrópusambandsins. Efnið brotnar ekki niður í fiskum og í mönnum er helmingunartími um 8 ár.
(Sjá frétt á heimasíðu IVL 17. febrúar).

Gríðarleg aukning á notkun lúsameðala í norsku fiskeldi

Norskar laxakvíar MDNotkun lúsameðalanna díflúbensúrón og teflúbensúrón í norsku fiskeldi tvöfaldaðist á milli áranna 2011 og 2012 og aftur á milli áranna 2012 og 2013. Efnin eru skaðleg fyrir rækjur, krabba og aðrar lífverur í grennd við laxaeldisstöðvarnar, og dæmi eru um að teflúbensúrón hafi greinst í sýnum í allt að kílómetra fjarlægð frá næstu laxakví. Síðustu ár hafa þessi efni m.a. greinst í villtum fiski, setlögum og botndýrum. Villtum laxfiskum stafar mikil hætta af lúsasmiti frá laxeldisstöðvum, en þessi mikla aukning á notkun lúsameðala virðist ekki hafa dugað til að draga úr smithættunni að neinu ráði. Umhverfisstofnun Noregs (Miljødirektoratet) telur brýnt að leita nýrra leiða til að bregðast við þessari ógn.
(Sjá frétt á heimasíðu Miljødirektoratet 4. mars).

Rauntímavöktun regnskóga á netinu

GFW_logo_4cFramvegis getur almenningur fylgst með ástandi regnskóga heimsins í nánast beinni útsendingu á netinu, en World Resources Institute (WRI) í Washington hefur gert þetta mögulegt með aðstoð Google Earth og nokkurra annarra aðila. Með þessari nýju tækni verður hægt að fylgjast með regnskógum á svæðum sem hingað til hafa verið lítið sem ekkert vöktuð. Verkefnið gengur undir nafninu Global Forest Watch, og þeir sem að því standa vonast til að það skapi þrýsting á ríkisstjórnir að stöðva eyðingu skóga og leiði jafnframt til ábyrgari verslunar með afurðir á borð við pálmaolíu, soja og kjöt, sem hugsanlega eru framleiddar á svæðum þar sem regnskógar hafa verið ruddir.
(Sjá frétt PlanetArk í dag).

Jarðvegstippur við kóralrifið mikla

KóralrifStjórnvöld í Ástralíu hafa leyft að þremur milljónum rúmmetra af aur verði sturtað í hafið innan marka þjóðgarðsins sem umlykur kóralrifið mikla. Þetta er gert til að liðka til fyrir hafnarframkvæmdum við Abbot Point þar sem verið er að byggja stærstu kolaútskipunarhöfn í heimi, en þær framkvæmdir tengjast áformaðri kolavinnslu úr Galilee lægðinni í Queensland. Umhverfisverndarsinnar, vísindamenn og ferðaþjónustuaðilar hafa barist gegn þessari losun jarðefna í hafið, bæði vegna þeirra beinu áhrifa sem losunin kann að hafa á kóralrifin og vegna fyrirsjáanlega aukinnar skipaumferðar um svæðið. Þessir aðilar óttast jafnvel að rifin verði tekin af heimsminjaskrá UNESCO. Stjórnvöld hafa bent á það á móti að meira rask myndi fylgja öðrum hafnarframkvæmdum, að botninn á þessu svæði einkennist hvort sem er af sandi, seti og leir og að losunarstaðurinn sé ekki svo ýkja nálægt kóralrifunum, jafnvel þótt hann sé innan marka verndarsvæðisins.
(Sjá frétt The Telegraph í dag).

Mikil hnignun votlendis í Kína

Kína votlendiVotlendi í Kína hefur minnkað um 9% frá árinu 2003. Þetta hefur ýtt undir vatnsskort, sem þegar er orðinn alvarlegt vandamál fyrir íbúa og atvinnulíf. Í Kína býr rúmlega fimmtungur jarðarbúa, en þar eru aðeins um 6% af aðgengilegu ferskvatni jarðar. Votlendið sem tapast hefur á síðustu 10 árum er um 340.000 ferkílómetrar að flatarmáli, eða rúmlega þrefalt stærra en Ísland. Þessu landi hefur ýmist verið breytt í landbúnaðarland, lagt undir mannvirki eða þornað upp vegna loftslagsbreytinga.
(Sjá frétt PlanetArk í dag).

Fornri þekkingu beitt gegn hnignun tegunda

IPBESFulltrúar 115 þjóða innan IPBES (Milliríkjanefndarinnar um líffræðilega fjölbreytni og þjónustu vistkerfa) hafa tekið höndum saman um að safna og leiða saman fornar landbúnaðaraðferðir og þekkingu frumbyggja hvaðanæva að úr heiminum í þeirri von að þessu megi beita til að sporna gegn hraðasta útdauða tegunda frá því á dögum risaeðlanna. Meðal þeirra aðferða sem talið er að geti nýst í þessari viðleitni er fiskeldi á hrísgrjónaökrum líkt og stundað var í Kína og víðar fyrir 1200 árum. Með því að rækta hrísgrjón og fiska á sama svæði er hægt að draga úr varnarefnanotkun um 68% og minnka þörfina fyrir tilbúinn áburð um 24% samanborið við einhæfar ræktunaraðferðir samtímans. Varnarefni drepa alla jafna fleiri tegundir lífvera en þeim er ætlað, þannig að þessi eina aðgerð getur skipt verulegu máli fyrir vistkerfið. Einnig verður skoðað hvernig samnýta megi veðurþekkingu Inúíta með gögnum frá gervihnöttum til að meta bráðnun íss, svo annað dæmi sé nefnt.
(Sjá frétt PlanetArk í dag).