Lífræn flúorsambönd leka frá æfingasvæðum slökkviliða

UntitledVerulegt magn lífrænna flúorsambanda hefur fundist í drykkjarvatni og í fiskum á svæðum nálægt æfingasvæðum slökkviliða í Svíþjóð. Í rannsóknarverkefninu Re-Path á vegum sænska fyrirtækisins IVL kom í ljós að flúorsambandið PFOS (perflúoroktýlsúlfónat), sem notað var í slökkvifroðu á 8. og 9. áratug síðustu aldar, hefur borist í yfirborðsvatn í grennd við æfingasvæði slökkviliða. Í sveitarfélaginu Ronneby var vatnsbóli lokað af þessum sökum, enda er efnið talið vera hormónaraskandi, krabbameinsvaldandi og geta valdið lifrarbilun. PFOS hefur einnig fundist í fiski í stöðuvötnum í kringum Stokkhólm, og var styrkur efnisins í mörgum tilfellum langt yfir leyfilegum mörkum Evrópusambandsins. Efnið brotnar ekki niður í fiskum og í mönnum er helmingunartími um 8 ár.
(Sjá frétt á heimasíðu IVL 17. febrúar).