Tíðatappar yfirleitt lausir við hættuleg efni

test-kemi-i-tamponer-1-160Tíðatappar sem fást í dönskum verslunum eru flestir lausir við hættuleg efni að því er fram kemur í nýrri úttekt dönsku neytendasamtakanna Tænk. Hins vegar kann annað að gilda um tappa sem keyptir eru á netinu. Í úttekt Tænk voru 11 tegundir tíðatappa efnagreindar í leit að ilmefnum, glýfosati, lausum trefjum, klórleifum, formaldehýði og nónýlfenólefnum. Aðeins ein tegund (TAMPAX C Active Fresh) féll á prófinu, þar sem hún innihélt ilmefni og slík efni geta valdið ofnæmi. Í annari tegund fundust leifar af plöntueitrinu glýfosati, en magnið var svo lítið að það var ekki talið geta verið skaðlegt. Hinar tegundirnar níu voru lausar við umrædd efni. Tænk bendir á að Svansmerktir tíðatappar séu góður valkostur, en úrvalið af þeim er enn mjög takmarkað.
(Sjá frétt á heimasíðu Tænk í dag).

Hættuleg efni í leikföngum

BarnmeddotRúmur helmingur af 30 tegundum tréleikfanga fyrir börn að þriggja ára aldri sem skoðaðar voru í nýrri rannsókn á vegum Stiftung Warentest reyndust innihalda hættuleg efni. Um var að ræða efni á borð við PAH, lífræn tinsambönd, blý, hættuleg litarefni og formaldehýð, þ.e.a.s. efni sem geta verið krabbameinsvaldandi og hormónaraskandi svo eitthvað sé nefnt. Efnin fundust einkum í lakki, snúrum, netum og krossviði.
(Sjá frétt á heimasíðu Stiftung Warentest 21. nóvember).

Gamlir plastdiskar geta gefið frá sér melamín

Melamíndót IMSMelamín og formaldehýð úr borðbúnaði úr plasti geta borist í matvæli, einkum þegar borðbúnaðurinn er tekinn að slitna eða ef hitastig matvælanna fer yfir 70°C. Því hefur Danska upplýsingamiðstöðin um umhverfi og heilsu hvatt fólk til að láta gamla plastdiska og plastglös ekki ganga til yngri barna í fjölskyldunni, en nota þess í stað áhöld sem keypt voru eftir 1. janúar 2013, þar sem þá lækkuðu hámarksgildi (sértæk flæðimörk) fyrir melamín (úr 30 í 2,5 mg/kg matvæla) í samræmi við nýjar reglur ESB. Aldrei ætti að hita mat í ílátum úr melamínplasti í örbylgjuofni. Melamín hefur efnafræðiheitið 2,4,6-tríamínó-1,3,5-tríazín og er ásamt formaldehýði uppistaðan í melamínplasti (öðru nafni amínóplasti).
(Sjá frétt á forbrugerkemi.dk 21. maí).