Tíðatappar yfirleitt lausir við hættuleg efni

test-kemi-i-tamponer-1-160Tíðatappar sem fást í dönskum verslunum eru flestir lausir við hættuleg efni að því er fram kemur í nýrri úttekt dönsku neytendasamtakanna Tænk. Hins vegar kann annað að gilda um tappa sem keyptir eru á netinu. Í úttekt Tænk voru 11 tegundir tíðatappa efnagreindar í leit að ilmefnum, glýfosati, lausum trefjum, klórleifum, formaldehýði og nónýlfenólefnum. Aðeins ein tegund (TAMPAX C Active Fresh) féll á prófinu, þar sem hún innihélt ilmefni og slík efni geta valdið ofnæmi. Í annari tegund fundust leifar af plöntueitrinu glýfosati, en magnið var svo lítið að það var ekki talið geta verið skaðlegt. Hinar tegundirnar níu voru lausar við umrædd efni. Tænk bendir á að Svansmerktir tíðatappar séu góður valkostur, en úrvalið af þeim er enn mjög takmarkað.
(Sjá frétt á heimasíðu Tænk í dag).

Snyrtivörur geta mengað sundlaugarvatn

sundlaugar_160Ýmis skaðleg efni úr snyrtivörum og lyfjum sem sundlaugargestir nota geta borist í sundlaugarvatn og hugsanlega hvarfast við klór og myndað þannig sótthreinsiefni með lítt þekkta virkni. Vísindamenn frá Háskólanum í Purdue í Indíana mældu nýlega nokkrar tegundir efnasambanda í sundlaugarvatni og fundu meðal annars DEET sem er virka efnið í sumu skordýraeitri, koffín og eldvarnarefnið tríklóróetýlfosfat (TCEP). Sum efni af þessu tagi geta gufað upp og komist þannig inn í öndunarveginn eða borist í líkamann í gegnum húð eða um meltingarfæri. Rannsóknin náði einungis til 32 efna, en vísindamennirnir telja að efnin geti skipt þúsundum. Losun efnanna í sundlaugar er í raun stjórnlaus og fátt vitað um hugsanlegar afleiðingar.
(Sjá frétt ENN 6. janúar).