Skaðleg efni í snyrtivörum fyrir börn

baby_kosmetik_160Tíu vörur sem flokkast sem snyrtivörur fyrir börn reyndust allar innihalda skaðleg efni þegar norsku neytendasamtökin (Forbrukerrådet) könnuðu innihald þeirra á dögunum í leit sinni að ofnæmisvaldandi og hormónaraskandi efnum. Sex vörutegundir innihéldu sérstaka tegund af útblámasíu (e. UV-filter) sem ESB hefur skilgreint sem hormónaraskandi og mælt með að ekki sé notuð í vörur fyrir börn. Þá fannst ilmefnið Lyral í þremur vörum, en árið 2011 lagði vísindanefnd ESB til að Lyral yrði bannað í vörum fyrir börn vegna þess hversu öflugur ofnæmisvaldur það er. Að mati Forbrukerrådet gefa þessar niðurstöður skýrt til kynna að þörf sé á strangari reglugerðum um efni í neytendavörum, og þá sérstaklega þegar um er að ræða vörur sem markaðsettar eru fyrir börn.
(Sjá frétt Forbrukerrådet 22. janúar).

Barnavörur innihalda enn skaðleg efni

pennaveskiÓlöglegt magn skaðlegra efna finnst enn í ýmsum vörum sem markaðsettar eru fyrir börn. Umhverfisstofnun Noregs (Miljødirektoratet (MD)) birti á dögunum niðurstöður rannsóknar á 90 barnavörum og reyndust fjórar þeirra innihalda ólöglegt magn af skaðlegum efnum. Þannig fannst SCCP (keðjustutt klórparaffín) og þalatið DEHP í einni gerð pennaveskis og í barnapeysu, nánar tiltekið í aukahlutum á vörunum svo sem rennilásum og hnöppum. Bæði SCCP og þalöt eru notuð sem mýkingarefni í plast. Umhverfisstofnunin hefur krafist þess að þær fjórar vörur sem ekki stóðust lagakröfur verði teknar af markaði í Noregi. Stofnunin telur eftirlit með barnavörum sérstaklega mikilvægt þar sem börn eigi til að stinga hlutum upp í sig, jafnvel þótt þeir séu ekki sérstaklega til þess ætlaðir.
(Sjá frétt Miljødirektoratet í dag).

Akrýlamíð í kartöfluflögum og frönskum kartöflum

snakk_160Mikið magn akrýlamíðs fannst í nýrri rannsókn Norsku neytendasamtakanna (Forbrukerrådet) á frönskum kartöflum og kartöfluflögum þrátt fyrir að hægt sé að lágmarka magn efnisins í matvöru með tiltækri tækni. Frá árinu 2002 hefur verið stefnt að því innan Evrópusambandsins að draga úr magni akrýlamíðs í mat, enda er efnið talið krabbameinsvaldandi auk þess sem mikið magn efnisins getur haft neikvæð áhrif á taugakerfi, fósturþroska og sæðisframleiðslu. Matvælastofnun Noregs segir það áhyggjuefni hversu hægt gengur að minnka akrýlamíð í matvöru og telur matvælaframleiðendur ekki taka vandamálið nógu alvarlega. Evrópusambandið hefur ekki sett hágmarksgildi fyrir akrýlamíð, en viðmiðunargildi sambandsins eru 600-1000 míkrógrömm á hvert kíló matvöru. Hæsta gildið í rannsókn Forbrukerrådet var 2.232 míkrógrömm. Akrýlamíð myndast m.a. þegar kolvetnarík fæða er hituð yfir 120°C.
(Sjá frétt Forbukerrådet 20. ágúst).

Tríklósan finnst enn í svitalyktareyði

deodame_160pxTríklósan fannst í þremur tegundum af svitalyktareyði í nýlegri rannsókn norsku samtakanna Framtiden i våre hender, en tríklósan getur gert bakteríur ónæmar fyrir sýklalyfjum. Skaðsemi efnisins hefur verið þekkt um árabil og hefur Matvælastofnun Noregs lengi barist fyrir banni á notkun þess í neytendavörum. Í rannsókninni voru 28 svitalyktareyðar skoðaðir og reyndust þeir innihalda ýmis umhverfis- og heilsuskaðleg efni önnur en tríklósan. Þannig fundust ofæmisvaldandi ilmefni í 21 tegund, fimmtán innihéldu ál, fjögur innihéldu sílikonsambandið cyclopentasiloxane, míkróplast fannst í tveimur tegundum og ein innihélt silfur. Oft er mikið af skaðlegum efnum í snyrtivörum, og eru svitalyktareyðar einn versti vöruflokkurinn hvað það varðar. Af þeim 28 tegundum sem skoðaðar voru telur Framtiden i våre hender sig aðeins geta mælt með notkun tveggja.
(Sjá frétt Framtiden i våre hender 19. ágúst).

Býfluguvænn lífstíll

byflugurÁætlað er að um 12 af þeim 206 býflugna- og humlutegundum sem fundist hafa í Noregi séu ekki lengur til staðar í náttúrunni. Býflugur leika afar stórt hlutverk í vistkerfum jarðar með því að sjá um frævun plantna, en talið er að um 9,5% af landbúnaðarframleiðslu heimsins séu háð þessari þjónustu. Í ljósi þessa hafa Umhverfisstofnun Noregs (Miljødirektoratet) og Norska garðyrkjufélagið (Hageselskapet) hleypt af stokkunum átakinu „Suðandi garðar“ (n.summende hager), sem kynnt var í gær. Verkefnið hefur það að markmiði að sýna íbúum hverju þeir geti breytt til að bjarga býflugum. Birtir eru listar yfir býfluguvænar plöntur og runna, varað við notkun skordýraeiturs og sett fram ráð um það hvernig byggja megi upp býfluguhótel og hirða garða að öðru leyti þannig að þeir verði meira aðlaðandi fyrir skordýr. Verkefnið hefur sína eigin Fésbókarsíðu.
(Sjá frétt á heimasíðu Miljødirektoratet í gær).

Gríðarleg aukning á notkun lúsameðala í norsku fiskeldi

Norskar laxakvíar MDNotkun lúsameðalanna díflúbensúrón og teflúbensúrón í norsku fiskeldi tvöfaldaðist á milli áranna 2011 og 2012 og aftur á milli áranna 2012 og 2013. Efnin eru skaðleg fyrir rækjur, krabba og aðrar lífverur í grennd við laxaeldisstöðvarnar, og dæmi eru um að teflúbensúrón hafi greinst í sýnum í allt að kílómetra fjarlægð frá næstu laxakví. Síðustu ár hafa þessi efni m.a. greinst í villtum fiski, setlögum og botndýrum. Villtum laxfiskum stafar mikil hætta af lúsasmiti frá laxeldisstöðvum, en þessi mikla aukning á notkun lúsameðala virðist ekki hafa dugað til að draga úr smithættunni að neinu ráði. Umhverfisstofnun Noregs (Miljødirektoratet) telur brýnt að leita nýrra leiða til að bregðast við þessari ógn.
(Sjá frétt á heimasíðu Miljødirektoratet 4. mars).

Leikskólar með næstum 100% lífrænt fæði

moss_barnehage_1Tveir leikskólar í Moss í Noregi fengu í byrjun þessa árs staðfestingu vottunarstofunnar Debio á því að yfir 90% af öllum mat sem börnin fá í leikskólunum sé lífrænt vottaður. Um er að ræða einkarekna leikskóla, þar sem ákvörðun var tekin fyrir ári síðan um að börnin skyldi eingöngu fá lífrænt vottað fæði. Um leið er börnunum kennt um uppruna fæðunnar, því að allur matur er keyptur inn sem hráefni og unninn á staðnum með virkri þátttöku barnanna. Meðal annars fara börnin í heimsókn á sveitabæi og gera síðan sína eigin osta og baka sín eigin brauð, auk þess sem leikskólarnir hafa sína eigin matjurtagarða. Þá hefur verið haldið sérstakt „lífrænt bakstursnámskeið“ fyrir starfsfólk, svo eitthvað sé nefnt. Stjórnendur leikskólanna vonast til að fleiri leikskólar fylgi í kjölfarið og breyti verklagi við innkaup og matargerð.
(Sjá frétt á heimasíðu Debio 29. janúar).

Varað við hárlitun

Hárlitir ForbrukerrådetNorsku neytendasamtökin (Forbrukerrådet) vara fólk við því að láta lita á sér hárið, sérstaklega þegar í hlut eiga börn, ófrískar konur og mæður með börn á brjósti. Aðvörunin kemur í kjölfar efnagreiningar samtakanna á 12 tegundum hárlita. Allar tegundirnar innihéldu öfluga ofnæmisvalda og í 10 þeirra fundust auk þess hormónaraskandi efni. Samtökin benda á að ofnæmi fyrir efnum í hárlitum fylgi fólki allt lífið, en þeir sem vilji eftir sem áður fá lit í hárið ættu að kaupa þá þjónustu á „grænum hárgreiðslustofum“. Að sögn talsmanns samtakanna gerir almenningur sér ekki grein fyrir því að hárlitir eru „botnvörur“ (n. versting-produkter) í heilsufarslegu tilliti. Samtökin lýsa eftir aðgerðaáætlun stjórnvalda um eiturlausan hversdag, en slíkar áætlanir hafa lengi verið til í Danmörku og Svíþjóð.
(Sjá fréttatilkynningu Forbrukerrådet 9. janúar).

Svansmerktur jólapappír loks fáanlegur í Noregi

Svansmerktur jólapappír 160Nú geta norskir neytendur í fyrsta sinn keypt Svansmerktan jólapappír, en hafin er framleiðsla á slíkum pappír í prentsmiðjunni Grøset. Svansmerkið tryggir að pappírinn uppfylli gæðakröfur og að í honum séu engin skaðleg litarefni eða yfirborðsefni. Þetta þýðir jafnframt að flokka má pappírinn með öðrum pappír til endurvinnslu, en venjulegur jólapappír er yfirleitt ónothæfur til slíks vegna efnainnihalds o.fl.
(Sjá frétt á heimasíðu Svansins í Noregi 6. desember).

Síloxan í norskum vatnafiski

Siloksan MDNý rannsókn á fiskum í Mjøsa og fleiri norskum stöðuvötnum bendir sterklega til að síloxön safnist upp í lífkeðjunni. Í rannsókninni fundust síloxönin D5 og D6 í ýmsum tegundum vatnalífvera og fór styrkurinn vaxandi eftir því sem ofar dró í fæðukeðjunni. Þannig var styrkurinn hærri í fiskum sem éta aðra fiska en í fiskum sem nærast á svifi. Þá fannst meira af efnunum nær þéttbýlisstöðum en fjær. Síloxön eru notuð í ýmsar vörur, svo sem snyrtivörur, bílahreinsivörur og málningu.
(Sjá frétt á heimasíðu Umhverfisstofnunar Noregs 27. nóvember).