Norsku neytendasamtökin (Forbrukerrådet) vara fólk við því að láta lita á sér hárið, sérstaklega þegar í hlut eiga börn, ófrískar konur og mæður með börn á brjósti. Aðvörunin kemur í kjölfar efnagreiningar samtakanna á 12 tegundum hárlita. Allar tegundirnar innihéldu öfluga ofnæmisvalda og í 10 þeirra fundust auk þess hormónaraskandi efni. Samtökin benda á að ofnæmi fyrir efnum í hárlitum fylgi fólki allt lífið, en þeir sem vilji eftir sem áður fá lit í hárið ættu að kaupa þá þjónustu á „grænum hárgreiðslustofum“. Að sögn talsmanns samtakanna gerir almenningur sér ekki grein fyrir því að hárlitir eru „botnvörur“ (n. versting-produkter) í heilsufarslegu tilliti. Samtökin lýsa eftir aðgerðaáætlun stjórnvalda um eiturlausan hversdag, en slíkar áætlanir hafa lengi verið til í Danmörku og Svíþjóð.
(Sjá fréttatilkynningu Forbrukerrådet 9. janúar).