Tveir leikskólar í Moss í Noregi fengu í byrjun þessa árs staðfestingu vottunarstofunnar Debio á því að yfir 90% af öllum mat sem börnin fá í leikskólunum sé lífrænt vottaður. Um er að ræða einkarekna leikskóla, þar sem ákvörðun var tekin fyrir ári síðan um að börnin skyldi eingöngu fá lífrænt vottað fæði. Um leið er börnunum kennt um uppruna fæðunnar, því að allur matur er keyptur inn sem hráefni og unninn á staðnum með virkri þátttöku barnanna. Meðal annars fara börnin í heimsókn á sveitabæi og gera síðan sína eigin osta og baka sín eigin brauð, auk þess sem leikskólarnir hafa sína eigin matjurtagarða. Þá hefur verið haldið sérstakt „lífrænt bakstursnámskeið“ fyrir starfsfólk, svo eitthvað sé nefnt. Stjórnendur leikskólanna vonast til að fleiri leikskólar fylgi í kjölfarið og breyti verklagi við innkaup og matargerð.
(Sjá frétt á heimasíðu Debio 29. janúar).