Síloxan í norskum vatnafiski

Siloksan MDNý rannsókn á fiskum í Mjøsa og fleiri norskum stöðuvötnum bendir sterklega til að síloxön safnist upp í lífkeðjunni. Í rannsókninni fundust síloxönin D5 og D6 í ýmsum tegundum vatnalífvera og fór styrkurinn vaxandi eftir því sem ofar dró í fæðukeðjunni. Þannig var styrkurinn hærri í fiskum sem éta aðra fiska en í fiskum sem nærast á svifi. Þá fannst meira af efnunum nær þéttbýlisstöðum en fjær. Síloxön eru notuð í ýmsar vörur, svo sem snyrtivörur, bílahreinsivörur og málningu.
(Sjá frétt á heimasíðu Umhverfisstofnunar Noregs 27. nóvember).

Silfur getur safnast upp í lífverum

Silfur, m.a. í nanóformi, er í auknum mæli notað sem bakteríuvörn í ýmsar neytendavörur, svo sem skó, sokka, skurðarbretti og þvottavélar. Nú hafa bandarískir vísindamenn hins vegar komist að því að silfur sem upphaflega var til staðar í nanóformi getur safnast upp í lífverum í hærri styrk en í umhverfi þeirra. Þetta veldur nokkrum áhyggjum, en hingað til hafa menn talið að þegar silfrið bærist út í náttúruna settist það að í jarðvegi og setlögum en hefði ekki tilhneigingu til lífmögnunar.
(Sjá nánar í frétt á forbrugerkemi.dk 3. september sl. og
útdrátt úr grein í Environmental Science and Technology).