Matvælastofnun danska Tækniháskólans (DTU) telur að viðmið sem Matvælaöryggisstofnun Evrópu (EFSA) gaf út í síðasta mánuði fyrir þolanlegan hámarksdagskammt Bisfenóls-A (BPA) sé of hátt. Að mati EFSA ætti dagleg inntaka á 4 míkrógrömmum á hvert kíló líkamsþyngdar að vera örugg frá heilsufarslegu sjónarmiði, en eftir að hafa rýnt þær heimildir sem EFSA byggir niðurstöðu sína á telur DTU að miða ætti við 0,7 míkrógrömm. Sérfræðingar DTU telja að í ráðleggingum EFSA sé ekki nægjanlegt tillit tekið til vísbendinga úr dýrarannsóknum um áhrif efnisins á brjóstvef, þroskun kynfæra og þroskun heila. Því feli hin nýja skilgreining á þolanlegum hámarksdagskammti (e. tolerable daily intake (TDI)) ekki í sér nægjanlega vernd fyrir neytendur. BPA er einkum að finna í tilteknum plastumbúðum og í kassakvittunum og er talið raska hormónastarfsemi líkamans.
(Sjá frétt á heimasíðu DTU 23. febrúar).