Hormónaraskandi efni fundust í miklum meirihluta blóðsýna sem tekin voru úr 565 ófrískum konum í Odense í nýlegri rannsókn á vegum Syddansk Universitet. Þarna var meðal annars um að ræða þalöt, parabena, BPA, tríklósan og perflúoruð efni. Þessi efni er að finna í margs konar vörum, svo sem í leikföngum, lækningatækjum, sólarvörn, snyrtivörum, plasti, byggingarefnum og yfirborðsefnum á húsgögnum, regnfötum og öðrum fatnaði. Hormónaraskandi efni eru talin hafa sérlega skaðleg áhrif á fóstur. Þeir sem stóðu fyrir rannsókninni telja niðurstöðurnar gefa tilefni til að hafa áhyggjur af stöðu mála, en hins vegar sé jákvætt að styrkur efnanna hafi í flestum tilvikum verið lægri en gerist og gengur hjá verðandi mæðrum í öðrum Evrópulöndum og vestanhafs. Ábendingar um leiðir til að forðast hormónaraskandi efni á meðgöngunni er að finna á heimasíðu Umhverfisstofnunar Danmerkur.
(Sjá frétt á heimasíðu Syddansk Universitet 11. apríl).