Kvikasilfur, kadmíum, kótínín og þalöt voru meðal þeirra efna sem fundust í 4.000 þvag- og hársýnum frá mæðrum og börnum þeirra í 17 Evrópulöndum sem tóku þátt í rannsókn sem sagt var frá á ráðstefnu á Kýpur í síðustu viku. Í 6 af þessum löndum var einnig leitað að bisfenól A, parabenum og tríklósan, og reyndust þessi efni einnig vera til staðar í sýnunum. Efnin eiga það sameiginlegt að vera hormónaraskandi og geta þannig átt þátt í margs konar alvarlegum kvillum. Talsmenn efnaiðnaðarins telja ekki ástæðu til að hafa áhyggjur af þessum niðurstöðum þar sem styrkur efnanna hafi verið undir hættumörkum. Samtök um heilsufar almennings eru á öðru máli og benda á að þessi efni eigi ekki að vera til staðar í líkama fólks, auk þess sem áhrif þeirra til langs tíma kunni að vera vanmetin og of lítið sé vitað um samlegðaráhrif efnanna (kokkteiláhrif).
(Sjá frétt EurActive 26. október).
Mér finnst afar mikilvægt að hefja herferð til að gera almenningi kleift (sem fæstir eru sérfræðingar í efnafræði) að lágmarka hættuna af þessu, með aukinni upplýsingu. Við vitum því miður ekkert eða of lítið um samlegðaráhrif efnanna. Ef að venjuleg kona um fertugt hefur verið um tuttugu ár á pillunni (sem er auka áhætta), er dyggur aðdáandi tupperware, er svag fyrir snyrtivörum hvaða nöfnum sem þau nefnast og er bara svona að öðru leyti frekar meðal neytandi plastinnpakkaðra matvara – hvaða áhætta er þá tekin? Á meðan við vitum of lítið um langtímaáhrif af slíkum lífsstíl sem ég held að ótrúlega margir myndu falla undir bæði konur og menn (þó ekki þetta með pilluna). Þegar við vitum lítið er tilhneiging til að segja að maður verði að bíða eftir niðurstöður ára- og áratugalangra rannsókna…það hlýtur að vera hægt að veita nokkuð öruggar upplýsingar á hugsanlegri áhættu á mannamáli þannig að fleiri hafi möguleika á að skilja það.
Kristín Guðmundsdóttir
Ég hef einmitt verið að hugsa um, hvort að krabbamein, hvar sem er í líkamanum og hvort sem það er karlar eða konur, hafi ekki aukist. Hér áður var talað um að það væri af of miklu áti á reyktum og söltuðum mat og einnig brenndum mat. En ég held að ekki sé hægt að kenna því um nú. Það kom strax upp í hugan á mér þegar ég las greinina frá Stefáni Gíslasyni um öll þessi aukaefni sem ættu ekki að vera í líkamanum.