Styrkur blýs í líkömum sænskra barna hefur minnkað sexfalt frá árinu 1994 þegar blýlaust bensín komst í almenna notkun þarlendis. Þetta kemur fram í sænskri handbók um eiturefnafræði málma (Handbook on the Toxicology of Metals). Sænski eiturefnafræðingurinn Staffan Skerfving segir þróunina frá blýblönduðu bensíni vera dæmi um farsælt verkefni sem hefur bætt heilsufar íbúa. Þróunin hefur verið svipuð í öðrum löndum eftir að bannað var að blanda blýi í bensín. Blýið er lengi til staðar í umhverfinu, en Staffan telur að á þeim 20 árum sem liðin eru hafi stór hluti þess bundist í jarðvegi og hafi því sífellt minni áhrif á heilsu manna. Á síðustu árum hafa mörg þróunarríki einnig hætt notkun blýblandaðs bensíns og er talið að það sé nú einungis selt í sex ríkjum. Blý getur m.a. haft skaðleg áhrif á þróun heilastarfsemi hjá börnum.
(Sjá frétt Sveriges Radio 20. mars).