Skaðlegir þungmálmar í símahulstrum og veskjum

barnogsimahulstur_160Símahulstur og veski úr gervileðri innihalda mörg hver þungmálma. Þetta kom fram í nýrri athugun Test Fakta í Svíþjóð, þar sem skoðaðar voru 11 vörur af þessu tagi. Fimm af þessum vörum innihéldu blý, þar af fjórar í meiri styrk en leyft verður í væntanlegum reglum ESB um efnainnihald í vörum sem börn geta stungið upp í sig. Í símahulstri úr plasti frá Glitter fannst einnig óleyfilegt magn kadmíums og í tveimur hulstrum frá Apple og Phonehouse fannst mikið af krómi. Ekki var þó um að ræða sexgilt króm heldur þrígilt sem talið er minna skaðlegt heilsunni. Blý er oft að finna í gervileðri, einkum í rauðum lit, en króm finnst frekar í leðurvöru þar sem málmurinn er notaður við sútun. Ólíklegt er að þungmálmarnir í þessum vörum valdi heilsutjóni einir og sér, en hafa ber í huga að lítið er vitað um kokteiláhrif skaðlegra efna úr neytendavörum. Börn eru sérstaklega viðkvæm fyrir slíku.
(Sjá frétt Test Fakta 12. janúar).

Þungmálmar í málmleikföngum og ódýrum skartgripum

BlárbíllMálmleikföng og ódýrir skartgripir innihalda oft þungmálma sem geta skaðað heilsu barna sem setja vörur af þessu tagi upp í sig. Meðal efna sem fundust í leikföngum og skartgripum í nýlegri rannsókn vestanhafs má nefna blý, kadmíum, kopar, nikkel, arsenik og antímon. Í rannsókninni var sýnt fram á að þessi efni gætu leyst upp í meltingarvökva og þannig borist um líkamann. Heilsufarsleg áhrif af þessu geta bæði verið skammvinn og langvarandi. Blý og kadmíum geta t.d. haft áhrif á vitsmunaþroska barna.
(Sjá frétt Science Daily 5. mars).

Hormónaraskandi efni í öllum?

Kvikasilfur, kadmíum, kótínín og þalöt voru meðal þeirra efna sem fundust í 4.000 þvag- og hársýnum frá mæðrum og börnum þeirra í 17 Evrópulöndum sem tóku þátt í rannsókn sem sagt var frá á ráðstefnu á Kýpur í síðustu viku. Í 6 af þessum löndum var einnig leitað að bisfenól A, parabenum og tríklósan, og reyndust þessi efni einnig vera til staðar í sýnunum. Efnin eiga það sameiginlegt að vera hormónaraskandi og geta þannig átt þátt í margs konar alvarlegum kvillum. Talsmenn efnaiðnaðarins telja ekki ástæðu til að hafa áhyggjur af þessum niðurstöðum þar sem styrkur efnanna hafi verið undir hættumörkum. Samtök um heilsufar almennings eru á öðru máli og benda á að þessi efni eigi ekki að vera til staðar í líkama fólks, auk þess sem áhrif þeirra til langs tíma kunni að vera vanmetin og of lítið sé vitað um samlegðaráhrif efnanna (kokkteiláhrif).
(Sjá frétt EurActive 26. október).