Málmleikföng og ódýrir skartgripir innihalda oft þungmálma sem geta skaðað heilsu barna sem setja vörur af þessu tagi upp í sig. Meðal efna sem fundust í leikföngum og skartgripum í nýlegri rannsókn vestanhafs má nefna blý, kadmíum, kopar, nikkel, arsenik og antímon. Í rannsókninni var sýnt fram á að þessi efni gætu leyst upp í meltingarvökva og þannig borist um líkamann. Heilsufarsleg áhrif af þessu geta bæði verið skammvinn og langvarandi. Blý og kadmíum geta t.d. haft áhrif á vitsmunaþroska barna.
(Sjá frétt Science Daily 5. mars).