Engin kalkvinnsla í Ojnareskógi

Umhverfisyfirréttur Svíþjóðar (Mark- och miljööverdomstolen) hefur úrskurðað að óheimilt sé að opna kalknámu í Ojnareskógi á Gotlandi, þar sem svæðið njóti verndar sem Natura 2000-svæði. Fyrirtækin Nordkalk og SMA Mineral fengu leyfi til kalkvinnslu á svæðinu árið 2014 en leyfisveitingin var kærð til dómstólsins. Natura 2000-svæðið sem um ræðir var stækkað eftir 2014 en samkvæmt úrskurði dómstólsins ber að taka tillit til áhrifa kalkvinnslunnar á hið stækkaða svæði, þó að vinnsluleyfi hafi verið veitt fyrir stækkun, enda hafi stækkunin verið staðfest fyrir dómi. Kalkvinnslan myndi spilla þessu svæði og því skuli hún óheimil. Fyrirtækin sem í hlut eiga geta áfrýjað úrskurðinum til Hæstaréttar (Högsta domstolen) en ólíklegt þykir að Hæstiréttur hnekki úrskurðinum, þar sem hann fjallar um flókin vatnafræðileg og náttúruvísindaleg viðfangsefni sem Hæstiréttur mun tæplega taka til skoðunar. Úrskurðurinn þykir mikill sigur fyrir heimamenn og aðra sem lengi hafa barist gegn umræddri kalkvinnslu.
(Sjá frétt Aktuell hållbarhet í gær).

Færðu inn athugasemd