Umhverfis- og matvælaráðuneyti Danmerkur (Miljø- og Fødevareministeriet) hefur veitt styrk úr svonefndri MUDP-áætlun til að þróa aðferð til að hreinsa örplast úr frárennsli þvottahúsa. Verkefnið verður unnið í samvinnu við mottuþvottahúsið Berendsen Textil Service í Karup, en þar eru á hverjum degi þvegin um 50 tonn af gólfmottum úr stofnunum og fyrirtækjum. Samkvæmt skýrslu frá Umhverfisstofnun Danmerkur (Miljøstyrelsen) koma um 2% af því örplasti sem fyrirfinnst í dönsku fráveituvatni frá þvottahúsum og í hvert skipti sem mottur eru þvegnar skolast út drjúgir skammtar af örplasti úr ryki, skósólum og úr mottunum sjálfum. Styrkurinn frá MUDP nemur tæplega milljón danskra króna (um 15 millj. ísl. kr.) og standa vonir til að verkefnið leiði af sér aðferð sem dugar til að ná 80% af plastögnunum sem annars myndu skolast út.
(Sjá frétt á heimasíðu Miljøstyrelsen 23. febrúar).
Greinasafn fyrir flokkinn: Úrgangur
Hægt að minnka plastmengun hafsins um 77% fyrir árið 2025
Með því að fjárfesta í úrbótum í úrgangsmálum fátækari landa væri hægt að minnka verulega það magn af plastúrgangi sem berst í hafið árlega. Árið 2025 gæti magnið verið komið niður í 2,4-6,4 milljónir tonna, sem samsvarar um 77% samdrætti frá því sem nú er. Þessar tölur koma fram í nýrri skýrslu ráðgjafarfyrirtækisins Nextek sem kynnt var í vikunni. Þar er bent á að enn séu ekki til neinar árangursríkar aðferðir til að hreinsa plast úr hafinu og að því verði að leggja megináherslu á að fyrirbyggja að plastið berist þangað. Skref í þessa átt væri að nota eingöngu endurnýjanlegar umbúðir, enda hafi menn enga afsökun fyrir því að gera það ekki. Þá þurfi ríkari lönd að veita verulegu fé til úrbóta í úrgangsmeðhöndlun í fátækari löndum, en ástandið er einna verst í Kína, Indónesíu, Filippseyjum og Sri Lanka. Þegar skýrslan var kynnt kom fram að plastmengun í hafi væri orðin svo alvarleg að hún þyrfti að vera á dagskrá allra alþjóðlegra funda á borð við fundi G20-ríkjanna, Alþjóðaefnahagsráðsins (World Economic Forum) og Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna.
(Sjá frétt Waste Management World í dag).
Örplast mengar jafnvel ystu afkima úthafanna
Örplast finnst jafnvel á afskekktustu svæðum úthafanna. Þetta kom fram þegar sýni voru tekin á 45,5°S í Suður-Indlandshafi á svæði sem er nánast ókannað og ósnortið af athöfnum manna. Þarna reyndust vera 42 örplastagnir í hverjum rúmmetra sjávar, sem er mun meira en gert hafði verið ráð fyrir. Þetta mun vera í fyrsta sinn sem örplastmælingar eru gerðar á svo afskekktu hafsvæði. Magn örplasts er þó mun meira á fjölfarnari svæðum. Sem dæmi má nefna að 180-307 örplastagnir mælast í hverjum rúmmetra sjávar nálægt ströndum í Norður-Atlantshafi og í Miðjarðarhafi. Talið er að samtals lendi meira en 8 milljón tonn af plasti í hafinu á hverju ári og í raun vita menn lítið um afdrif þess.
(Sjá frétt The Guardian 12. febrúar).
Mikil glimmernotkun á kjötkveðjuhátíðum veldur áhyggjum
Gríðarlegt magn af glimmer er notað í skraut og líkamsmálningu í tengslum við kjötkveðjuhátíðir á borð við þær sem fram fara þessa dagana í Ríó og víðar. Glimmer er að mestu leyti gert úr plastefnum og því stuðlar þessi mikla notkun að vaxandi örplastmengun í hafinu. Sumir skipuleggjendur hafa leitast við að draga úr glimmernotkuninni en aðrir frábiðja sér afskipti af þessari ríku hefð. Hægt er að fá glimmer úr efnum sem brotna niður í náttúrunni, svo sem úr sellulósa úr tröllatré (e. Eucalyptus), vaxi og náttúrulegum olíum. Glimmer af þessu tagi er hins vegar margfalt dýrara en örplastglimmer.
(Sjá frétt The Guardian 11. febrúar).
Ný aðferð til að mæla örplast í drykkjarvatni
Umhverfisstofnun Danmerkur (Miljøstyrelsen) fékk nýlega Háskólann í Árósum til að þróa nýja aðferð til að taka sýni úr drykkjarvatni til greiningar á fjölda örplastagna. Mælingar sem gerðar voru sl. haust bentu til að verulegt magn örplasts væri að finna í dönsku drykkjarvatni, en mikil óvissa í mælingunum var talin veikja niðurstöðurnar. Þannig þótti ekki tryggt að utanaðkomandi mengun, t.d. úr lofti, hefði ekki spillt sýnunum. Aðferð Háskólans í Árósum gengur út á sýnatöku í lokuðu kerfi sem ætti að útiloka ytri mengunarþætti. Fyrstu prófanir með nýja búnaðinum benda til að örplastmengun í drykkjarvatni sé mun minni en fyrri mælingar gáfu vísbendingar um. Þannig fannst aðeins ein örplastögn í þremur 50 lítra sýnum sem skoðuð voru í tilraunaskyni. Ætlunin er að prófa búnaðinn með mun víðtækari rannsóknum á næstunni.
(Sjá frétt á heimasíðu Miljøstyrelsen í dag).
Fosfórmengun ógnar ferskvatni jarðar
Styrkur fosfórs í ferskvatni er víða kominn að hættumörkum, en á hverju ári bætast 1,47 teragrömm (1,47 milljónir tonna) vegna athafna manna við það sem fyrir er. Þetta kemur fram í nýrri rannsókn sem sagt er frá í tímaritinu Water Resources Research, sem gefið er út af The American Geophysical Union (AGU). Á 38% jarðarinnar er styrkur fosfórs í ferskvatni kominn fram úr því sem náttúruleg kerfi ráða við að taka upp og þynna. Á þessum svæðum búa um 90% mannkyns. Stærstur hluti fosfórmengunarinnar, um 54%, á rætur að rekja til fráveitukerfa, um 38% koma úr áburði sem skolast út af landbúnaðarlandi og 8% koma frá iðnaði. Fosfórmengun í vötnum stuðlar að ofauðgun og þörungablóma með tilheyrandi súrefnisskorti og dauða í neðri lögum vatnsins.
(Sjá frétt á heimasíðu AGU 25. janúar).
Aukin áhersla á endurvinnslu matarleifa
Á síðustu misserum hafa sífellt fleiri sveitarfélög í Danmörku tekið upp sérstaka söfnun á matarúrgangi. Nú er þessi þjónusta til staðar í 31 sveitarfélagi af 98, en var aðeins í 22 sveitarfélögum fyrir hálfu öðru ári. Með þessu móti opnast möguleikar á að nýta auðlindir í úrganginum betur, bæði með gasframleiðslu og framleiðslu jarðvegsbætis, en hingað hefur mest af þessum úrgangi farið í brennslu. Fyrir skemmstu náðist samkomulag innan Evrópusambandsins um að lögbinda sérstaka söfnun lífræns úrgangs frá og með árinu 2023.
(Sjá frétt á heimasíðu Miljøstyrelsen 23. janúar).
Einnota plastpokar bannaðir á Vanuatu
Ríkisstjórn Kyrrahafsríkisins Vanuatu hefur ákveðið að banna innflutning á einnota plastpokum og frauðplastílátum frá og með febrúarmánuði næstkomandi. Þetta er liður í að fylgja eftir stefnu stjórnvalda í málefnum hafsins, en Vanuatu er einmitt fyrsta Kyrrahafsríkið sem samþykkir slíka stefnu. Í framhaldinu er stefnt að því að banna einnig innflutning á plasthnífapörum og drykkjarrörum úr plasti.
(Sjá frétt PlanetArk 18. janúar).
Ný aðferð hreinsar lyfjaleifar úr skólpi
Tæknideild Linköpingbæjar í Svíþjóð hefur tekið í notkun fyrstu skólphreinsistöðina sem eyðir lyfjaleifum að miklu leyti áður en skólpinu er hleypt út í viðtakann. Þetta er gert með því að bæta ósoni í vatnið í stöðinni. Aðferðin er orkufrek og því nauðsynlegt að gæta hófs í beitingu hennar, auk þess sem tryggja þarf að allt ósonið sé nýtt í ferlinu. Fyrstu prófanir benda til að hægt sé að hreinsa allt að 90% lyfjaleifanna úr fráveituvatninu með þessari aðferð, en engu að síður leggja sérfræðingar áherslu á mikilvægi fyrirbyggjandi aðgerða til að sem minnst af lyfjaleifum berist í fráveituna.
(Sjá frétt Aktuell Hållbarhet 19. janúar).
Fiskar í menguðu vatni þurfa að vinna meira
Lyfjaleifar og önnur mengunarefni í vatni neyða fiska til að leggja á sig meira erfiði en ella til að komast af, að því er fram kemur í nýrri vísindagrein eftir sérfræðinga við McMaster-háskólann í Ontaríó í Kanada. Jafnvel fullkomnustu skólphreinsistöðvar ná ekki að klófesta leifar af lyfjum á borð við getnaðarvarnarpillur, þunglyndislyf og beta-blokkera áður en skólpinu er hleypt út í viðtakann. Þessi efni og önnur mengunarefni í vatni gera það að verkum að fiskar leggja á sig u.þ.b. 30% viðbótarvinnu til að losa sig við efnin. Þetta þýðir að minni orka verður afgangs en ella til annarra verka, svo sem til þess að afla næringar, verjast rándýrum og æxlast. Þar með minnka afkomumöguleikar stofnsins, jafnvel þótt efnin drepi ekki fiskana. Þarna er því í raun um falin eitrunaráhrif að ræða. Einn af höfundum rannsóknarinnar líkir þessum áhrifum við það ef fólk þyrfti að ganga í nokkrar klukkustundir á hverjum degi (án þess að fá meiri mat).
(Sjá frétt Science Daily 16. janúar).