Framleiðendur hætti notkun óþarfra flúorsambanda

fluor_160Hópur alþjóðlegra vísindamanna hefur skorað á framleiðendur að hætta notkun óþarfra flúorsambanda þar til meira verði vitað um möguleg heilsuskaðleg áhrif þeirra. Áskorunin er afrakstur alþjóðlegrar vísindaráðstefnu um flúorsambönd og hefur verið nefnd Helsingør yfirlýsingin. Flúorsamböndin sem um ræðir eru manngerð efni sem hrinda frá sér vatni, fitu og óhreinindum og hafa því þótt henta vel til notkunar í ýmsar neytendavörur, svo sem matarílát úr pappír. Efnin brotna hægt niður og safnast upp í lífverum auk þess sem talið er að þau geti valdið krabbameini, aukið kólesterólmagn, veikt ónæmiskerfið og haft áhrif á hormónaframleiðslu. Strangar reglur gilda um notkun tiltekinna flúorsambanda og telja höfundar yfirlýsingarinnar að þeim sé oft skipt út fyrir önnur flúorsambönd sem lítið sé vitað um. Því skora vísindamennirnir á framleiðendur að beita Varúðarreglunni við innleiðingu nýrra flúorsambanda og gæta þess jafnframt að efnin séu ekki notuð að óþörfu.
(Sjá frétt á heimasíðu Tækniháskóla Danmerkur (DTU) 27. ágúst).

Akrýlamíð í kartöfluflögum og frönskum kartöflum

snakk_160Mikið magn akrýlamíðs fannst í nýrri rannsókn Norsku neytendasamtakanna (Forbrukerrådet) á frönskum kartöflum og kartöfluflögum þrátt fyrir að hægt sé að lágmarka magn efnisins í matvöru með tiltækri tækni. Frá árinu 2002 hefur verið stefnt að því innan Evrópusambandsins að draga úr magni akrýlamíðs í mat, enda er efnið talið krabbameinsvaldandi auk þess sem mikið magn efnisins getur haft neikvæð áhrif á taugakerfi, fósturþroska og sæðisframleiðslu. Matvælastofnun Noregs segir það áhyggjuefni hversu hægt gengur að minnka akrýlamíð í matvöru og telur matvælaframleiðendur ekki taka vandamálið nógu alvarlega. Evrópusambandið hefur ekki sett hágmarksgildi fyrir akrýlamíð, en viðmiðunargildi sambandsins eru 600-1000 míkrógrömm á hvert kíló matvöru. Hæsta gildið í rannsókn Forbrukerrådet var 2.232 míkrógrömm. Akrýlamíð myndast m.a. þegar kolvetnarík fæða er hituð yfir 120°C.
(Sjá frétt Forbukerrådet 20. ágúst).

Áskorun um vottuð opinber innkaup

modupp_puff_362Helstu umhverfisvottunarstofur í Svíþjóð hafa skorað á ríki og sveitarfélög að sjá til þess að helmingur opinberra innkaupa verði annað hvort umhverfis- eða siðgæðisvottaður af þriðja aðila fyrir árið 2020. Nú þegar hafa sveitarfélögin Örebro, Eskilstuna og Malmö tekið áskoruninni enda líta þau á vistvæna innkaupastefnu hins opinbera sem mikilvægan þátt í að sýna íbúum gott fordæmi. Áskorunin var gefin út af sjö helstu umhverfis- og siðgæðismerkingum Svíþjóðar, þ.e. Norræna svaninum, Umhverfismerki ESB, Bra Miljöval, Fairtrade, Krav, MSC og TCO Certified. Áskorunin er leið samtakanna til að benda á að nú sé tími til kominn fyrir opinbera geirann að nútímavæða innkaup sín og stuðla að því að Svíþjóð nái innlendum og alþjóðlegum markmiðum í umhverfisvernd og útrýmingu fátæktar. Opinberir aðilar í Svíþjóð kaupa vörur og þjónustu árlega fyrir um 600 milljarða sænskra króna (um 10.000 milljarða ísl. kr.), þannig að aukin áhersla á vottaðar vörur getur haft mikil áhrif á markaðinn.
(Sjá frétt Svansins í Svíþjóð 4. júní).

Sjálfbærni á Gautaborgarhringnum

goteborgvarvet_br--983 copySjálfbærni var höfð að leiðarljósi við undirbúning og framkvæmd Gautaborgarhringsins (s. Göteborgsvarvet) sem fram fór 17. maí sl. Hringurinn er fjölmennasta hálfmaraþonhlaup í heimi og hefur því óhjákvæmilega talsverð áhrif á umhverfið, einkum vegna ferðalaga. Hlaupið er umhverfisvottað af yfirvöldum í Gautaborg (Miljödiplomerat), auk þess sem það hefur verið orðað við umhverfisverðlaun Alþjóða maraþon- og langhlaupasambandsins (AIMS). Koltvísýringslosun vegna eigin ferða á vegum hlaupsins nam um 26 tonnum og voru ferðirnar kolefnisjafnaðar með samsvarandi fjárframlagi til fyrsta vindorkuvers Nikaragúa. Þá má nefna að úrgangi sem til féll var komið í endurvinnslu, bananar og kaffi sem boðið var upp á var vottað af Rainforest Alliance, ekki var hægt að kaupa flöskuvatn á svæðinu, a.m.k. 30% af seldum matvælum voru lífrænt vottuð, eingöngu var notuð endurnýjanleg raforka og þátttakendur höfðu aðgang að ókeypis almenningssamgöngum á keppnisdaginn.
(Sjá frétt Gröna Bilister 15. maí).

Páskaeggjaumbúðir endurunnar

Sainsburys-Easter-Egg-Rec-009Sérstökum endurvinnslutunnum fyrir páskaeggjaumbúðir hefur verið komið fyrir í 50 verslunum bresku keðjunnar Sainsbury’s. Í tunnurnar er hægt að skila harðplasti, mjúkplasti, pappa, álpappír, borðum og hvers kyns umbúðaúrgangi sem notaður er utan um páskaegg. Talið er að um 3.000 tonn af umbúðaúrgangi falli til í Bretlandi á hverju ári í tengslum við sölu á páskaeggjum og öðru páskatengdu súkkulaði. Með átaki sínu vill Sainsbury’s ýta undir aukna endurvinnslu og minnka magn heimilisúrgangs til urðunar.
(Sjá frétt The Guardian í dag).

Grænþvottur í tískugeiranum

26111Fyrirtæki í tískugeiranum sem segjast leggja áherslu á sjálfbærni, geta mörg hver ekki lagt fram nein gögn máli sínu til stuðnings. Í nýjustu „FeelGoodFashion-skýrslu“ vefsíðunnar Rank A Brand kemur fram að af þeim 368 tískuvörumerkjum sem rannsökuð voru staðhæfðu um 50% að verkefni væru í gangi til að minnka losun gróðurhúsalofttegunda en aðeins 4% gátu sýnt fram á samdrátt í losun. Sömu sögu var að segja um lífræn og endurunnin efni, en mörg fyrirtæki kváðust nota slík efni í vörur sínar án þess að geta sannað hlutfall þeirra í vörunum. Sífellt fleiri aðilar í tískugeiranum upplýsa um umhverfisáherslur sínar og gildir það nú um 63% af öllum vörumerkjum í greininni. Að mati Rank A Brand er þar um grænþvott að ræða í 30% tilvika, þ.e.a.s. upplýsingar sem eiga sér ekki stoð í raunverulegri starfsemi viðkomandi fyrirtækja.
(Sjá frétt EDIE í dag).

Hálfmaraþon í Kaupmannahöfn stuðlar að betri heimi

IAAF halfmaraHeimsmeistaramótið í hálfu maraþonhlaupi, sem fram fer í Kaupmannahöfn laugardaginn 29. mars, er fyrsti íþróttaviðburðurinn sem hlýtur sérstaka viðurkenningu Alþjóða frjálsíþróttasambandsins (IAAF) fyrir framlag sitt til samfélagslegrar ábyrgðar. Viðurkenningin, sem nefnist á ensku Athletics Better World award, verður framvegis veitt þeim mótshöldurum sem þykja skara framúr í áherslum sínum á heilbrigðismál, umhverfismál, félagslegan jöfnuð og frið. Ein ástæða þess að hlaupið í Kaupmannahöfn fær þennan stimpil er sú að þar ákváðu mótshaldarar að gefa almenningi sömu tækifæri til þátttöku og helstu stjörnunum í íþróttinni. Fá dæmi eru um íþróttaviðburði þar sem öllum gefast sömu tækifæri til að glíma við sömu áskoranir á sömu braut og á sama tíma og mestu stjörnur íþróttaheimsins.
(Sjá frétt á heimasíðu IAAF í gær).