Svíar kaupa nú hlutfallslega jafnmikið af lífrænt vottuðum vörum og Danir, en Danir hafa hingað til verið fremstir í heimi hvað þetta varðar. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu frá Ekoweb, sem um árabil hefur sérhæft sig í að greina markaðinn fyrir lífrænar vörur. Í skýrslunni kemur fram að um mitt ár 2016 hafi markaðshlutdeild lífrænt vottaðrar vöru í stærstu matvöruverslunarkeðjunum og í Áfengisverslun ríkisins (Systembolaget) verið komin í 9%, sem er sama hlutfall og í Danmörku. Salan í Svíþjóð hafði þá aukist um 23% frá sama tímabili 2015. Forsvarsmenn vottunarstofunnar KRAV í Svíþjóð hafa sett sér það markmið að Svíar verði komnir upp fyrir Dani á þessu sviði í árslok og þar með orðnir „bestir í heimi“. Úrslitin í þeirri keppni verða hugsanlega ljós 26. janúar 2017. Hvað lífræna framleiðslu varðar eiga Svíar lengra í land, en þar trónir Austurríki í toppnum.
(Sjá frétt á heimasíðu KRAV í dag).
Greinasafn fyrir merki: KRAV
Skólaeldhús notar 100% lífrænt vottað
Skólaeldhús Byskolans í Södra Sandby í Svíþjóð notar nú eingöngu lífrænt vottaða matvöru, en kostnaður við hverja máltíð hefur þó ekki hækkað frá því sem áður var. Á sama tíma hafa gæði máltíða aukist og matarsóun minnkað. Að sögn kokkanna í eldhúsinu réðu nokkur undirstöðuatriði úrslitum um að svo vel tókst til, þ.á.m. að hætt var að kaupa aðsendan mat frá stóreldhúsum. Í framhaldi af því var lögð mikil vinna í að finna framleiðendur og birgja sem seldu lífrænt vottaða vöru. Þá hefur sveigjanleiki skipt miklu máli, þ.e. að láta framboð á lífrænum vörum á hverjum tíma stýra matseðlinum. Einnig þarf eldhúsið að sjá um hluta framleiðslunnar, svo sem að búa til lífrænar pylsur þar sem slík vara fæst ekki á markaðnum.
(Sjá frétt á heimasíðu KRAV 16. janúar).
Áskorun um vottuð opinber innkaup
Helstu umhverfisvottunarstofur í Svíþjóð hafa skorað á ríki og sveitarfélög að sjá til þess að helmingur opinberra innkaupa verði annað hvort umhverfis- eða siðgæðisvottaður af þriðja aðila fyrir árið 2020. Nú þegar hafa sveitarfélögin Örebro, Eskilstuna og Malmö tekið áskoruninni enda líta þau á vistvæna innkaupastefnu hins opinbera sem mikilvægan þátt í að sýna íbúum gott fordæmi. Áskorunin var gefin út af sjö helstu umhverfis- og siðgæðismerkingum Svíþjóðar, þ.e. Norræna svaninum, Umhverfismerki ESB, Bra Miljöval, Fairtrade, Krav, MSC og TCO Certified. Áskorunin er leið samtakanna til að benda á að nú sé tími til kominn fyrir opinbera geirann að nútímavæða innkaup sín og stuðla að því að Svíþjóð nái innlendum og alþjóðlegum markmiðum í umhverfisvernd og útrýmingu fátæktar. Opinberir aðilar í Svíþjóð kaupa vörur og þjónustu árlega fyrir um 600 milljarða sænskra króna (um 10.000 milljarða ísl. kr.), þannig að aukin áhersla á vottaðar vörur getur haft mikil áhrif á markaðinn.
(Sjá frétt Svansins í Svíþjóð 4. júní).
Metsala á lífrænum matvælum í Svíþjóð
Í Svíþjóð jókst sala á lífrænt vottuðum matvælum um 13% milli áranna 2012 og 2013. Þetta er mesta aukning sem sést hefur í nokkur ár og langt umfram spár sem gerðu ráð fyrir 5% aukningu. Lífræn matvæli seldust fyrir samtals 11,6 milljarða sænskra króna (um 206 milljarða ísl. kr.), sem samsvarar um 4,3% markaðshlutdeild á matvörumarkaði. Árið áður var þetta hlutfall 3,8%.
(Sjá fréttatilkynningu KRAV í dag)