Áskorun um vottuð opinber innkaup

modupp_puff_362Helstu umhverfisvottunarstofur í Svíþjóð hafa skorað á ríki og sveitarfélög að sjá til þess að helmingur opinberra innkaupa verði annað hvort umhverfis- eða siðgæðisvottaður af þriðja aðila fyrir árið 2020. Nú þegar hafa sveitarfélögin Örebro, Eskilstuna og Malmö tekið áskoruninni enda líta þau á vistvæna innkaupastefnu hins opinbera sem mikilvægan þátt í að sýna íbúum gott fordæmi. Áskorunin var gefin út af sjö helstu umhverfis- og siðgæðismerkingum Svíþjóðar, þ.e. Norræna svaninum, Umhverfismerki ESB, Bra Miljöval, Fairtrade, Krav, MSC og TCO Certified. Áskorunin er leið samtakanna til að benda á að nú sé tími til kominn fyrir opinbera geirann að nútímavæða innkaup sín og stuðla að því að Svíþjóð nái innlendum og alþjóðlegum markmiðum í umhverfisvernd og útrýmingu fátæktar. Opinberir aðilar í Svíþjóð kaupa vörur og þjónustu árlega fyrir um 600 milljarða sænskra króna (um 10.000 milljarða ísl. kr.), þannig að aukin áhersla á vottaðar vörur getur haft mikil áhrif á markaðinn.
(Sjá frétt Svansins í Svíþjóð 4. júní).

Samsung Galaxy S4 fyrstur með TCO-vottun

TCO CertifiedSamsung Galaxy S4 varð á dögunum fyrsti snjallsíminn á markaðnum til að fá svonefnda TCO-sjálfbærnivottun, en TCO er óháð alþjóðlegt vottunarkerfi fyrir samskiptabúnað af ýmsu tagi. Til að fá þessa vottun þurfa snjallsímar að uppfylla viðmiðunarkröfur sem ná til alls lífsferils símanna og snúast m.a. um félagslega ábyrgð í framleiðslunni, ýmsa heilsu- og umhverfisþætti á notkunarskeiði, magn hættulegra efna o.fl. Það er von þeirra sem að vottuninni standa að þessi fyrsti TCO-vottaði sími hafi áhrif á það hvernig staðið verði að framleiðslu annarra snjallsíma á næstu misserum.
(Sjá fréttatilkynningu TCO Development 16. maí sl.).