Sænskir og íslenskir vísindamenn telja sig hafa fundið leið til að framleiða raforku og varmaorku með kjarnasamruna í smáum stíl. Aðferðin er frábrugðin fyrri aðferðum að því leyti að eingöngu er notast við tvívetni (deuteríum) í stað þrívetnis (trítíum) og við samrunann myndast nær engar nifteindir heldur fyrst og fremst þungar rafeindir (muon) sem hafa þann kost að vera í senn rafhlaðnar og lítt skaðlegar. Vísindamennirnir telja að innan fárra ára verði hægt að nota þessa aðferði til orkuframleiðslu.
(Sjá frétt ScienceDaily í dag).
Greinasafn fyrir merki: Gautaborg
Sjálfbærni á Gautaborgarhringnum
Sjálfbærni var höfð að leiðarljósi við undirbúning og framkvæmd Gautaborgarhringsins (s. Göteborgsvarvet) sem fram fór 17. maí sl. Hringurinn er fjölmennasta hálfmaraþonhlaup í heimi og hefur því óhjákvæmilega talsverð áhrif á umhverfið, einkum vegna ferðalaga. Hlaupið er umhverfisvottað af yfirvöldum í Gautaborg (Miljödiplomerat), auk þess sem það hefur verið orðað við umhverfisverðlaun Alþjóða maraþon- og langhlaupasambandsins (AIMS). Koltvísýringslosun vegna eigin ferða á vegum hlaupsins nam um 26 tonnum og voru ferðirnar kolefnisjafnaðar með samsvarandi fjárframlagi til fyrsta vindorkuvers Nikaragúa. Þá má nefna að úrgangi sem til féll var komið í endurvinnslu, bananar og kaffi sem boðið var upp á var vottað af Rainforest Alliance, ekki var hægt að kaupa flöskuvatn á svæðinu, a.m.k. 30% af seldum matvælum voru lífrænt vottuð, eingöngu var notuð endurnýjanleg raforka og þátttakendur höfðu aðgang að ókeypis almenningssamgöngum á keppnisdaginn.
(Sjá frétt Gröna Bilister 15. maí).
Sjálfbærni fléttuð inn í öll námskeið
Ákveðið hefur verið að flétta áherslur sjálfbærrar þróunar inn í námsefni allra námsbrauta við Viðskiptaháskólann í Gautaborg. Nemendur við skólann hafa um árabil haft aðgang að námskeiðum um sjálfbæra þróun og tekið þátt í rannsóknum á því sviði, en héðan í frá verður séð til þess að allir kandidats- og meistaranemar læri um sjálfbæra þróun sem hluta af reglulegu námi. Skólayfirvöld telja þessa menntun mikilvægan lið í að undirbúa nemendur fyrir framtíðarstörf sín sem t.d. lögfræðingar, hagfræðingar og stjórnendur. Þeim sé nauðsynlegt að læra að skilja og fást við sífellt erfiðari siðferðilegar spurningar og þau flóknu hnattrænu viðfangsefni sem samfélagið stendur frammi fyrir.
(Sjá frétt á heimasíðu skólans 30. september).
Þrengslaskattur í Gautaborg gefur góða raun
Þrengslaskattur (e. congestion tax) sem lagður er á ökutæki á helstu umferðaræðum á leið inn í Gautaborg hefur gefið góða raun. Gjaldtakan hófst um nýliðin áramót og strax í janúarmánuði var umferð um gjaldstöðvar 17% minni en í sama mánuði 2012. Á sama tíma jókst farþegafjöldi almenningsfarartækja um 13-18%. Í tengslum við þetta vinna borgaryfirvöld að því að fjölga bílastæðum utan gjaldsvæðanna verulega til að auðvelda fólki að geyma bíla sína þar og nota almenningssamgöngur á leið sinni inn í borgina.
(Sjá skýrslu Umferðarstofu Svíþjóðar 21. febrúar).
Keppt í sjálfbærni á EM í Gautaborg
Sjálfbærni verður ný keppnisgrein á Evrópumeistaramótinu í frjálsum íþróttum innanhúss sem haldið verður í Gautaborg 1.-3. mars nk. Þar er ætlunin að fá a.m.k. 6.000 manns, þ.e.a.s. jafnmarga sætunum í frjálsíþróttahöllinni, til að undirrita sérstakt loftslagsheit í 10 liðum. Sænsku náttúruverndarsamtökin(Naturskyddsföreningen) með þekktasta starfsmann sinn, Carólínu Klüft, í broddi fylkingar, hafa unnið að undirbúningi verkefnisins með Evrópska frjálsíþróttasambandinu. Sams konar keppni verður háð á fjórum öðrum Evrópumeistaramótum (félagsliða, ungmenna og í víðvangshlaupi) síðar á árinu, en öll þessi mót eru aðilar að samstarfi um umhverfismál undir yfirskriftinni „Green inspiration„.
(Sjá frétt á heimasíðu Frjálsíþróttasambands Evrópu 22. febrúar).