Sjálfbærni var höfð að leiðarljósi við undirbúning og framkvæmd Gautaborgarhringsins (s. Göteborgsvarvet) sem fram fór 17. maí sl. Hringurinn er fjölmennasta hálfmaraþonhlaup í heimi og hefur því óhjákvæmilega talsverð áhrif á umhverfið, einkum vegna ferðalaga. Hlaupið er umhverfisvottað af yfirvöldum í Gautaborg (Miljödiplomerat), auk þess sem það hefur verið orðað við umhverfisverðlaun Alþjóða maraþon- og langhlaupasambandsins (AIMS). Koltvísýringslosun vegna eigin ferða á vegum hlaupsins nam um 26 tonnum og voru ferðirnar kolefnisjafnaðar með samsvarandi fjárframlagi til fyrsta vindorkuvers Nikaragúa. Þá má nefna að úrgangi sem til féll var komið í endurvinnslu, bananar og kaffi sem boðið var upp á var vottað af Rainforest Alliance, ekki var hægt að kaupa flöskuvatn á svæðinu, a.m.k. 30% af seldum matvælum voru lífrænt vottuð, eingöngu var notuð endurnýjanleg raforka og þátttakendur höfðu aðgang að ókeypis almenningssamgöngum á keppnisdaginn.
(Sjá frétt Gröna Bilister 15. maí).
Sjálfbærni á Gautaborgarhringnum
Svara