Endurnýjanleg orka við tærnar á okkur!

xudong-wang-floor-power-775x517-160Vísindamenn við Háskólann í Wisconsin-Madison (UW) hafa þróað ódýrt, endurnýjanlegt og endingargott gólfefni sem getur framleitt raforku úr fótataki þeirra sem um gólfið ganga. Uppistaðan í efninu eru nanótrefjar úr sellulósa sem nóg er af í viðarúrgangi og fleiri aukaafurðum úr jurtaríkinu og byggir raforkuframleiðslan á snertingu sérstaklega meðhöndlaðra trefja við ómeðhöndlaðar trefjar. Hver eining getur verið allt niður í 1 mm að þykkt og er hægt að byggja gólfefnið upp úr mörgum slíkum lögum. Aðferðin hentar einkar vel í stórmörkuðum og á öðrum fjölförnum stöðum, en þar ætti að vera hægt að framleiða umtalsvert magn af raforku með þessum hætti. Næsta verk vísindamannanna er að prófa efnið við raunverulegar aðstæður.
(Sjá frétt á heimasíðu UW í dag).

Endurheimt skóga í hlíðum Kilimanjaro gæti bætt úr vatnsskorti í Austur-Afríku

340776-kilimanjaro-160Brýnt er að endurheimta skóga í hlíðum Kilimanjaro til að bæta vatnsbúskap svæðisins, að því er fram kemur í skýrslu Sameinuðu þjóðanna sem kynnt var í dag á fjallaráðstefnunni World Mountain Forum í Uganda. Á síðustu 40 árum hafa um 13.000 hektarar af skóglendi fjallsins eyðst vegna loftslagsbreytinga, m.a. í skógareldum, en áætlað er að þessir skógar hafi verið uppspretta drykkjarvatns fyrir milljón manns. Endurheimt skógarins bætir ekki aðeins vatnsstöðu og ræktunarmöguleika, heldur myndi hún einnig auðvelda uppbyggingu vatnsaflsvirkjana og styðja við ferðaþjónustu sem er gríðarlega mikilvæg fyrir hagkerfi nærliggjandi svæða.
(Sjá fréttasíðu Sameinuðu þjóðanna í dag).

Bráðinn kísill notaður sem orkugeymsla

silicio-fundido-2-eng-pie-160Vísindamenn við Tækniháskólann í Madrid (Universidad Politécnica de Madrid (UPM)) vinna nú að þróun orkugeymslu úr bráðnum kísli, en kísill er algengasta efnið í jarðskorpunni. Kísillinn er þá hitaður upp í 1.400°C með hita frá sólföngurum eða með afgangsorku úr raforkukerfinu og einangraður til að lágmarka varmatap. Þegar þörf er á orkunni er hægt að nota sólarsellur til að breyta hitanum aftur í raforku. Einn rúmmetri af bráðnum kísli getur geymt allt að 1 MWst af raforku, sem er mun betri nýting en í öðrum þekktum efnum. Frumgerð að orkugeymslu af þessu tagi er í smíðum og sótt hefur verið um einkaleyfi á hugmyndinni.
(Sjá frétt Science Daily 7. október).

Kolaskaut í rafhlöður framleidd úr bjórskólpi

beerVísindamenn við háskólann í Boulder, Colorado í Bandaríkjunum hafa fundið leið til að framleiða efni í kolaskaut fyrir rafhlöður úr fráveituvatni frá bjórverksmiðjum. Efnið er framleitt af sveppnum Neurospora crassa sem þrífst vel í sykurríku bjórskólpinu. Aðferðin er í sjálfu sér ekki ný en skólpið hentar betur en annar lífmassi þar sem það er tiltölulega einsleitt og alltaf til í nægu magni þar sem um 7 lítra af vatni þarf til að framleiða 1 lítra af bjór. Með framleiðslunni eru slegnar tvær flugur í einu höggi, því að sveppirnir hjálpa í leiðinni til við að hreinsa vatnið áður en því er sleppt út í viðtakann. Með því að beita aðferðinni í stórum stíl ætti að vera hægt að lækka kostnað við hreinsun verulega og lækka um leið kostnað við orkugeymslu.
(Sjá frétt Science Daily í dag).

Ódýr hálfleiðari gefur nýjar vonir

polyaniline-160Efnafræðingar við Arlingtonháskólann í Texas hafa sýnt fram á að hægt er nota fjölliðuna pólýanilín sem ljósskaut (e. photocathode) í sólarsellu sem klýfur koltvísýring sem síðan er hægt að vinna áfram í alkóhól til eldsneytis. Kostirnir við þessa aðferð umfram þær sem áður hafa verið notaðar eru m.a. þeir að í þessu tilviki þarf ekki utanaðkomandi efnahvata og auk þess eiga efnahvörfin sér stað við lágan hita. Ef mögulegt reynist að nota þessa aðferð við eldsneytisframleiðslu opnast ýmsir nýir möguleikar, m.a. vegna þess að pólýanilín er ódýrt efni sem auðvelt er að breyta í dúk eða filmu. Slíka dúka eða filmur mætti nota í stórum stíl á þök og á aðra fleti sem þar með gætu nýst við eldsneytisframleiðsluna.
(Sjá frétt Science Daily 20. september).

Nýting vindorku sífellt hagkvæmari

mediumKostnaður við nýtingu vindorku mun lækka verulega á næstu árum og áratugum að því er fram kemur í nýrri grein fremstu sérfræðinga á þessu sviði í tímaritinu Nature Energy. Samkvæmt þessu má búast við að kostnaðurinn lækki um 24-30% fram til ársins 2030 og 35-41% fram til 2050 – og jafnvel enn meira ef bjartsýnustu spár ganga eftir. Þessi aukna hagkvæmni mun byggjast á stærri vindmyllum sem nýta vindinn betur en nú er gert, lægri fjármagnskostnaði og lægri rekstrarkostnaði.
(Sjá frétt ENN í gær).

Eldfim á í Ástralíu!

australiaSvo mikið metangas streymir nú inn í Condamine ána í Queensland í Ástralíu að hægt er að kveikja í ánni. Á þessu svæði er mikið af jarðgasi unnið með bergbroti (e. fracking) en ástralski græningjaflokkurinn hefur beitt sér fyrir því að slík starfsemi verði bönnuð í landinu. Formaður flokksins bar sjálfur eld að ánni til að ganga úr skugga um gasinnihaldið. Eldurinn logaði í klukkutíma samfellt.
(Sjá frétt ENN 23. apríl).

Sólarsellur með grafenfilmu gætu framleitt raforku í rigningu

160406075516_1_540x360Filma úr efninu grafen, sem hægt er að vinna úr grafíti, gæti gert það mögulegt að framleiða raforku í sólarsellum í rigningu. Grafen er tvívítt form kolefnis sem hefur þann eiginleika að leiða vel rafmagn og innihalda mikið af rafeindum sem geta ferðast óbundnar um efnið. Regnvatn inniheldur sölt sem leysast upp í jákvætt og neikvætt hlaðnar jónir. Þegar regndroparnir snerta yfirborð grafenfilmunnar tekur grafenið til sín óbundnar rafeindir en vatnið verður þeim mun ríkara af jákvætt hlöðnum jónum, svo sem natríum, kalsíum og ammóníumjónum. Þannig myndast tvöfalt lag rafeinda og jákvætt hlaðinna jóna og skilyrði skapast til að mynda spennu og rafstraum. Frekari þróun tækninnar getur aukið afköst sólarsella þar sem hægt verður að framleiða rafmagn þótt sólar njóti ekki.
(Sjá frétt Science Daily í dag).

Stærsti fljótandi sólarorkugarður Evrópu í bígerð

fljotandiVinna við uppsetningu stærsta fljótandi sólarorkugarðs í Evrópu er hafin á uppistöðulóni Queen Elizabeth II stíflunnar á Thames. Alls verður rúmlega 23.000 sólarsellum með samanlagt uppsett afl upp á 6,3 MW komið fyrir á lóninu og munu þær þekja um 10% af yfirborði þess. Garðurinn er í eigu Thames Water sem er veitufyrirtæki í London sem sér um rekstur veitukerfa fyrir neysluvatn og skólp á svæðinu. Fyrirtækið hefur einsett sér að mæta 33% af orkuþörf sinni fyrir árið 2020 með eigin framleiðslu á endurnýjanlegri orku og er uppsetning sólarorkugarðsins liður í þeirri viðleitni. Um leið vill fyrirtækið leggja sitt af mörkum til að uppfylla Parísarsamninginn og draga úr losun.
(Sjá fréttatilkynningu Thames Water 15. febrúar).

Statoil stofnar tugmilljarða sjóð fyrir græna orku

VindmøllerNorski olíurisinn Statoil setti í dag á stofn sérstakan fjárfestingasjóð sem ætlað er að fjárfesta í verkefnum á sviði endurnýjanlegrar orku fyrir 1,7 milljarða norskra króna (rúmlega 25 milljarða ísl. kr.) á næstu 4-7 árum. Gert er ráð fyrir að þetta fé verði einkum lagt í uppbyggingu vindorku á landi og á hafi, sólarorku, orkugeymslu, orkuflutning, orkusparnað og snjallnetslausnir fyrir raforku.
(Sjá frétt á heimasíðu Statoil í dag).