Spáð, snætt og sparað

ThinkEatSaveÍ fyrradag hleyptu stofnanir Sameinuðu þjóðanna af stokkunum nýju átaki til að draga úr sóun matvæla. Átakið, sem hefur yfirskriftina „Think.Eat.Save“, beinist fyrst og fremst að neytendum, smásölu og veitingastöðum, en í þessum síðustu þrepum matvælakeðjunnar er áætlað að árlega sé hent um 300 milljónum tonna af ætum mat, m.a. vegna þröngrar túlkunar dagstimpla, útlitskrafna og of stórra skammta. Liður í átakinu er að halda úti upplýsingagáttinni www.thinkeatsave.org með yfirliti yfir stöðu mála og helstu verkefni sem í gangi eru á hverjum tíma til að draga úr sóun matvæla. Umhverfisstofnun Sameinuðu þjóðanna (UNEP) og Matvæla- og landbúnaðarstofnunin (FAO) standa fyrir átakinu í samvinnu við fleiri aðila. Að mati FAO tapast að jafnaði um þriðjungur allra matvæla sem framleidd eru í heiminum, árlega að verðmæti um 1 billjón Bandaríkjadala (um 130 þúsund milljarðar ísl. kr).
(Sjá frétt á heimasíðu UNEP 22. janúar).