Raftækjaúrgangur fyrir 19 milljarða Bandaríkjadala (um 2.500 milljarða ísl. kr.) er seldur árlega á svörtum markaði eða honum fargað á ólöglegan hátt samkvæmt nýrri skýrslu Umhverfisstofnunnar Sameinuðu þjóðanna (UNEP). Samkvæmt skýrslunni er þarna um að ræða 60-90% af öllum raftækjaúrgangi sem til fellur, en samtals verður um 41 milljón tonna af raftækjum að úrgangi á ári hverju. Raftækjaúrgangur er iðulega fluttur ólöglega til þróunarríkja þar sem verðmætir málmar og fleiri efni eru tínd úr og seld. Þetta er oftast gert við mjög slæm skilyrði þar sem starfsmenn eru í daglegri snertingu við skaðleg efni og þungmálma sem geta safnast upp í líkamanum. UNEP bendir einnig á að með þessu séu þjóðir að missa auðlindir úr landi þar sem úrgangsmeðhöndlun og flokkun úrgangs getur verið atvinnuskapandi í heimalandinu og skapað verðmæti með sölu endurvinnanlegra efna. Mikilvægt sé að taka á þessu vandamáli með auknu alþjóðlegu samstarfi og samræmi í löggjöf og eftirfylgni á heimsvísu og í hverju landi fyrir sig.
(Sjá frétt UNEP í dag).