Grænasta sjúkrahús heims rís í Grønneköpingki

Frá og með miðju þessu ári geta forsvarsmenn sjúkrahúsa heimsótt háskólasjúkrahúsið í Grønneköpingki til að fá góðar hugmyndir um umhverfisvænar lausnir í rekstrinum heimafyrir. Grønneköpingki er norræn sýndarveruleikaborg með 453.000 íbúum og háskólasjúkrahúsið þar verður ekki beinlínis áþreifanlegt. Þar verður engu að síður safnað saman dæmum um sjálfbærustu lausnirnar sem fyrirfinnast í rekstri sjúkrastofnana á Norðurlöndunum. Sjúkrahúsinu er ætlað að auðvelda rekstraraðilum að kynna sér slíkar lausnir og sjá hvar hægt sé að nálgast þær í raunheimum. Dómnefnd, sem skipuð er umhverfisstjórum nokkurra norrænna sjúkrastofnana, mun velja þær lausnir og þá söluaðila sem kynntir verða á þessum nýja vettvangi og upplýsingarnar verða uppfærðar árlega. Það er Nordic Center för Sustainable Healthcare sem stendur fyrir þessu verkefni, sem m.a. er fjármagnað af Norrænu nýsköpunarmiðstöðinni. Ætlunin er að sjúkrahúsið verði komið í fulla virkni árið 2021.
(Sjá frétt Aktuell Hållbarhet 11. janúar).

Þurfa fiskar hárnæringu?

QACsFjórgreind ammóníumsambönd (QACs) fundust í öllum sýnum sem tekin voru í afrennsli skólphreinsistöðva á Norðurlöndunum og í öllum sýnum sem tekin voru úr sjávarseti og fiskum, að því er fram kemur í nýrri norrænni skýrslu sem gefin hefur verið út og kynnt undir nafninu „Þurfa fiskar hárnæringu?“. Fjórgreind ammóníumsambönd, svo sem behentrímóníum, eru mikið notuð í neytendavörur á borð við mýkingarefni, þvottaefni, rotvarnarefni, hárnæringu og aðrar snyrtivörur og berast síðan út í náttúruna með fráveituvatni. Hingað til hefur lítil áhersla verið lögð á mælingar á styrk þessara efna, en þessar niðurstöður þykja gefa tilefni til að fylgjast betur með framvegis. Þó að lítið sé vitað um eiturefnafræðilega eiginleika efnanna var styrkur þeirra það hár í mörgum af sýnunum að líklegt verður að teljast að þau séu farin að hafa áhrif á lífríki sjávar á Norðurlöndunum.
(Sjá samantekt Nordic Screening frá 26. nóvember).