Ætla má að mengaðan jarðveg sé að finna á um 340.000 stöðum í Evrópu. Þetta kemur fram í matskýrslu Umhverfisstofnunar Evrópu (EEA). Aðeins er vitað um þriðjung þessara staða og enn sem komið er hafa aðeins um 15% verið hreinsuð. Mikill kostnaður fylgir hreinsun jarðvegs og erfitt getur reynst að beita mengunarbótareglunni við fjármögnun slíkra aðgerða þar sem oft eiga í hlut fyrirtæki sem eru hætt starfsemi. Árlegur kostnaður vegna mengaðs jarðvegs í Evrópu er áætlaður um 6,5 milljarðar evra (rúmlega 1.000 milljarðar ísl. kr). Talsverður hluti af þessum kostnaði lendir á almenningi. Um þriðjung vandamálsins má rekja til sorpförgunar og meðhöndlunar úrgangs og því eru úrgangsforvarnir ein besta leiðin til að koma í veg fyrir jarðvegsmengun. Málmiðnaður, bensínstöðvar og námuvinnsla eiga líka stóran þátt í menguninni, sem oftast er í formi jarðolíu eða þungmálma.
(Sjá frétt EEA 3. maí).