Yfirvöld á Gíbraltar hafa ákveðið að hætta að sleppa blöðrum á þjóðhátíðardegi höfðans, en hefð hefur verið fyrir slíku síðastliðin 24 ár. Gíbraltar hefur árum saman státað af einni stærstu blöðruhátíð í heimi, þar sem árlega er sleppt þúsundum hvítra og rauðra blaðra á þjóðhátíðardeginum. Áhrif blaðranna á lífríki sjávar hafa valdið mörgum íbúum áhyggjum og hafa grasrótarhreyfingar beitt sér fyrir því að þessi siður verði aflagður. Með því að hætta blöðrusleppingum vilja yfirvöld draga úr plastmengun í hafinu og neikvæðum áhrifum hennar á lífríki sjávar, um leið og aðgerðin felur í sér áminningu til ríkja heims um mikilvægi verndunar.
(Sjá frétt the Guardian 7. apríl).
Greinasafn fyrir flokkinn: Vistkerfi
Þörungaplast kemur í stað umbúðaplasts
Nýtt plastefni úr þörungum gæti komið í stað hefðbundins plasts í umbúðum, en hópur hönnuða hefur unnið að þróun efnisins undanfarin ár. „Plastið“ er unnið úr hlaupkenndum agar sem finna má í rauðþörungum og hefur sama efni verið notað í læknavísindum. Hönnuðurnir vinna nú að frumgerð sem keppir til úrslita í Lexus Design hönnunarkeppninni og verður í framhaldi af því sýnd í hönnunarvikunni í Mílanó. Hugmyndin er að framleiða fyrst plastpoka og litlar plastumbúðir úr efninu, t.d. fyrir hótel. Efnið brotnar auðveldlega niður í náttúrunni og hefur ekki áhrif á vistkerfi sjávar, auk þess sem niðurbrot þess í jörðu eykur vatnsheldni jarðvegs.
(Sjá frétt Plastics Today 15. mars).
Hlýnun sjávar eykur líkur á farsóttum í sjávardýrum
Hækkandi hitastig sjávar eykur líkur á smitsjúkdómum í sjávarlífverum og stuðlar jafnvel að hruni stofna, ef marka má tvær nýjar rannsóknir Cornell Háskólans í Bandaríkjunum. Í annarri rannsókninni voru áhrif hlýnunar sjávar á krossfiska við vesturströnd Bandaríkjanna skoðuð og kom þar fram að hægt var að rekja dauða um 90% krossfiskastofna á svæðinu frá Mexíkó að Alaska til hitabylgju á árunum 2013-2014. Í hinni rannsókninni kom fram að hitastig getur haft áhrif á farsóttir í stofnum skjaldbaka, kórala, humars, skelfisks og marhálms. Þannig er Ameríkuhumar mjög viðkvæmur fyrir breytingum á hitastigi, en humarinn er mikilvægur fyrir efnahag Maine-ríkis nyrst á austurströnd Bandaríkjanna. Erfitt er að koma í veg fyrir smit vegna hækkandi hitastigs, en höfundar rannsóknanna benda á mikilvægi þess að flytja ekki lífverur milli svæða, auk þess sem fylgjast þarf með sveiflum í hitastigi til að geta séð hitabylgjur fyrir.
(Sjá frétt Science Daily 16. febrúar).
Neðansjávarhávaði skaðlegri en talið var
Hávaði neðansjávar af mannavöldum virðist geta breytt hegðun hryggleysingja sem lifa á sjávarbotni að því er fram kemur í nýrri grein í tímaritinu Scientific Reports. Áhrif hávaða neðansjávar á fiska og spendýr hafa verið rannsökuð nokkuð, en þetta munu vera fyrstu vísbendingarnar um áhrif á hryggleysingja. Rannsóknin sem um ræðir var unnin af vísindamönnum við Háskólann í Southampton og í henni kom fram að hávaði hefði það í för með sér að dýrin rótuðu upp minna seti, sem aftur getur dregið úr dreifingu næringarefna og stuðlað að því að botninn verði þéttari og súrefnissnauðari en ella og þar með verri bústaður fyrir ýmsar lífverur sem eru undirstaða vistkerfisins í hafinu. Hljóð sem haft geta þessi áhrif geta m.a. borist frá skipaumferð og vindorkugörðum á hafi.
(Sjá frétt ScienceDaily 5. febrúar).
Ræktun dökkra skóga stuðlar að hnattrænni hlýnun
Aukin ræktun barrskóga í Evrópu á kostnað laufskóga virðist flýta fyrir hnattrænni hlýnun að því er fram kemur í nýrri rannsókn sem sagt er frá í vísindatímaritinu Science, en hingað til hefur öll skógrækt verið talin til þess fallin að sporna gegn loftslagsbreytingum. Skóglendi í Evrópu hefur stækkað um 196.000 ferkílómetra (u.þ.b. tvöfalda stærð Íslands) frá því um 1750. Þessa stækkun má rekja til mikillar ræktunar dökkgrænna fljótsprottinna barrtrjáa, svo sem furu og grenis, en á þessu tímabili hafa barrskógar í álfunni stækkað um 633.000 ferkílómetra á sama tíma og ljósari laufskógar hafa minnkað um 436.000 ferkílómetra. Ljós lauftré á borð við eik og birki endurkasta meira sólarljósi út í geiminn en dekkri lauftré og munurinn sem í þessu liggur er sagður gera meira en vega upp á móti meiri kolefnisbindingu í fljótsprottnum barrtrjám. Höfundar rannsóknarinnar telja að stjórnvöldum dugi ekki að taka einungis tillit til kolefnisbindingar í stefnumótun sinni í skógrækt, heldur þurfi líka að taka lit skógarins með í reikninginn, svo og áhrif hans á jarðveg og raka.
(Sjá frétt PlanetArk 5. febrúar).
Koltvísýringur ruglar fiska í ríminu
Hækkandi styrkur koltvísýrings í heimshöfunum getur ruglað fiska í ríminu og skert ratvísi þeirra. Þetta samhengi hefur verið þekkt um hríð, en nýjar rannsóknir vísindamanna við Háskólann í Nýja Suður-Wales í Ástralíu (UNSW) benda til að þetta geti gerst mun fyrr en áður var talið. Þannig gætu fiskar á tilteknum hafsvæðum, þ.m.t. í Norður-Atlantshafi, verið komnir í annarlegt ástand vegna koltvísýringshækkunar um miðja þessa öld. Um næstu aldamót gæti um helmingur allra dýra í heimshöfunum verið orðinn ringlaður af þessum sökum. Þessar breytingar munu hafa víðtæk áhrif á lífríki og hagkerfi ef svo heldur sem horfir.
(Sjá frétt Science Daily í dag).
Plasthreinsun við strendur dugar best
Leggja ætti áherslu á að hreinsa plastrusl úr sjónum við strendur nálægt þéttbýli í stað þess að reyna að veiða plastið upp úr plastflákunum á úthöfunum. Þetta er niðurstaða rannsókna á vegum Imperial College, en samkvæmt þeim væri hægt að minnka magn míkróplasts í hafinu um 31% með því að hreinsa strandsvæði. Árangurinn yrði hins vegar aðeins 17% ef hreinsunin beindist að plasteyjunni í Kyrrahafinu, sem nú er talin vera um tvöfalt stærri en Bretland. Mest af míkróplastinu sem mengar hafið berst af landi og því skilar hreinsun næst landi mestum árangri. Þá er um leið komið í veg fyrir að umrætt plast skaði lífríkið á leið sinni út á höfin, en lífríkið er einmitt mun fjölskrúðugra nær landi. Áætlað er að árlega berist um 5-13 milljónir tonna af plasti í hafið og að ef ekkert verði að gert verði þessi tala komin í 28 milljónir tonna árið 2025.
(Sjá frétt The Guardian í dag).
Súrnun sjávar dregur úr virkni sjávarbaktería
Súrnun sjávar hefur gríðarleg áhrif á virkni sjávarbaktería samkvæmt nýrri rannsókn frá Linnaeus háskólanum í Svíþjóð, en þar kemur fram að til að geta tekist á við lægra sýrustig þurfi bakteríurnar að draga verulega úr annarri virkni. Bakteríur gegna mikilvægu hlutverki í hringrás næringarefna í sjónum þar sem þær brjóta m.a. niður lífræn efni sem eru losuð í sjóinn með skólpi og sem verða til þegar smásæir þörungar deyja. Segja má að bakteríurnar séu skólphreinsistöðvar hafsins og þær stuðla að heilbrigðu vistkerfi. Þar að auki aðstoða bakteríurnar við að leysa úr læðingi köfnunarefni, fosfór og önnur næringarefni sem eru undirstaða fæðukeðjunnar. Talið er að heimshöfin verði um þrefalt súrari um næstu aldamót en þau eru nú, en hingað til hafa rannsóknir á áhrifum súrnunarinnar aðallega snúið að kóralrifum, kalkkenndum þörungum og skelfiski. Bein áhrif á bakteríuflóruna gæti haft ófyrirsjánleg áhrif á alla fæðukeðjuna.
(Sjá frétt Science Daily 12. janúar).
Obama staðfestir bann við míkróplasti!
Þann 28. desember sl. undirritaði Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, lög sem banna notkun míkróplasts í snyrtivörur í Bandaríkjunum. Í lögunum (Microbead-Free Waters Act of 2015) er míkróplast skilgreint sem „plastagnir minni en 5 mm“ og frá og með 1. júlí 2017 verður bannað að framleiða snyrtivörur fyrir Bandaríkjamarkað sem innihalda slíkar agnir. Árið 2019 verður öll sala slíkrar vöru bönnuð. Snyrtivöruframleiðendur hafa tekið lögunum fagnandi og hrósað yfirvöldum fyrir þá samstöðu sem skapaðist við setningu laganna, en margir af stærstu framleiðendunum hafa þegar gert áætlanir um að úthýsa míkróplasti úr vörum sínum. Eins og áður hefur komið fram á 2020.is fékk bann við míkróplasti byr undir báða vængi vestanhafs eftir að rannsóknir sýndu fram á gríðarlegt magn plastagna í Vötnunum miklu.
(Sjá frétt Environmental Leader 4. janúar).
Banna Bandaríkjamenn míkróplast?
Fulltrúadeild Bandaríkjaþings hefur samþykkt lagafrumvarp sem bannar sölu á snyrtivörum sem innihalda míkróplast. Frumvarpið bíður nú samþykktar öldungadeildarinnar og ef af verður kemur bannið til framkvæmda 1. júlí 2017. Míkróplast er farið að hafa veruleg áhrif á vistkerfi Vatnanna miklu og er velgengni frumvarpsins talin tengjast því að miklu leyti. Sem dæmi um ástandið má nefna að um 1,1 milljón plastagna fannst í hverjum ferkílómetra Ontariovatnsins í rannsókn sem gerð var 2013. Einn frummælenda lagafrumvarpsins orðaði það svo að „við munum berjast gegn hverri þeirri starfsemi sem ógnar okkar elskuðu vötnum“. Nú þegar hafa ríkin Illinois og Kalifornía sett lög sem banna vörur með míkróplasti og Ohio og Michigan eru einnig með slíkt í undirbúningi. Þrjú af þessum fjórum ríkjum liggja að Vötnunum miklu.
(Sjá frétt the Guardian í dag).