Norðurleiðin er ekki að opnast

2550Leiðin um Norður-Íshafið milli Norður-Evrópu og Kína verður varla orðin hagkvæm fyrir skipaflutninga fyrr en um eða eftir árið 2040 ef marka má nýja skýrslu frá Viðskiptaháskóla Kaupmannahafnar. Ýmsir hafa bundið miklar vonir við að þessi leið opnist á næstu árum en að mati skýrsluhöfunda verður ísinn á leiðinni svo óútreiknanlegur enn um sinn að kosta þurfi miklu til að styrkja ísvarnir á skipum eða kaupa þjónustu ísbrjóta. Lágt olíuverð gerir samanburðinn við Suezskurðinn enn óhagstæðari en ella. Félag danskra flutningaskipaeigenda (Danmarks Rederiforening) er á sama máli, en í félaginu eru nokkur af stærstu skipafélögum heims sem myndu jafnframt hafa mestan hag af opnun norðurleiðarinnar.
(Sjá frétt The Guardian 9. febrúar).

Neðansjávarhávaði skaðlegri en talið var

160205100511_1_540x360Hávaði neðansjávar af mannavöldum virðist geta breytt hegðun hryggleysingja sem lifa á sjávarbotni að því er fram kemur í nýrri grein í tímaritinu Scientific Reports. Áhrif hávaða neðansjávar á fiska og spendýr hafa verið rannsökuð nokkuð, en þetta munu vera fyrstu vísbendingarnar um áhrif á hryggleysingja. Rannsóknin sem um ræðir var unnin af vísindamönnum við Háskólann í Southampton og í henni kom fram að hávaði hefði það í för með sér að dýrin rótuðu upp minna seti, sem aftur getur dregið úr dreifingu næringarefna og stuðlað að því að botninn verði þéttari og súrefnissnauðari en ella og þar með verri bústaður fyrir ýmsar lífverur sem eru undirstaða vistkerfisins í hafinu. Hljóð sem haft geta þessi áhrif geta m.a. borist frá skipaumferð og vindorkugörðum á hafi.
(Sjá frétt ScienceDaily 5. febrúar).

Skip skylduð til að mæla CO2-losun

Shipping CO2 emissions : Ship starting her diesel enginesEvrópusambandið hefur samþykkt nýjar reglur sem skylda skipafélög til að mæla koltvísýringslosun skipaflotans frá og með árinu 2018. Reglurnar eru fyrsta skref ESB til að draga úr losun frá skipum en alþjóðlegir skipaflutningar eru ábyrgir fyrir um 3% af losun gróðurhúsalofttegunda í heiminum. Ákvörðun ESB er rökstudd með útreikningum Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar (IMO) sem sýna að ef ekkert verður að gert muni losun vegna skipaflutninga verða komin í 18% af heildarlosuninni árið 2050. Hinar nýju reglur kveða ekki á um losunarþak, heldur skuldbinda þær flutningaskip yfir 5.000 tonnum til að fylgjast með losuninni. Alþjóðlegir skipaflutningar munu því enn um sinn standa utan við viðskiptakerfi ESB um losunarheimildir (e. Emission Trading Scheme (ETS)). Engu að síður telur umhverfisráðherra Ítalíu, sem nú gegnir hlutverki formennskuríkis í sambandinu, að reglugerðin hafi mikið gildi í pólitísku og tæknilegu tilliti.
(Sjá frétt the Guardian í dag).