Kjarnasamruni handan við hornið?

Vísindamenn við Tækniháskólann í Massachusetts (MIT) telja sig hafa fundið leið til að framleiða hagkvæma varmaorku með kjarnasamruna innan 15 ára. Árum saman hafa menn haft á orði að kjarnasamruni sé orkugjafi framtíðarinnar og að þannig muni það alltaf verða. Hugmyndin gengur sem fyrr út á að virkja orku sem losnar þegar tvær vetnisfrumeindir sameinast og verða að helíumfrumeind, en til að koma þessu efnaferli af stað þarf hitastig upp á nokkurhundruð milljón °C, sem er langt umfram það sem nokkurt fast efni þolir. Vísindamennirnir við MIT telja sig geta leyst þetta vandamál með ofurseglum sem byggjast á ofurleiðniefninu yttríum-baríum-koparoxíði (YBCO). Þessir seglar eiga að geta haldið glóheitu rafgasi (plasma) í lausu lofti þannig að það snerti aldrei veggi ofnsins sem samruninn á sér stað í. Stærð ofnsins getur þá verið lítið brot af því sem áður hefur verið talið mögulegt og orkan sem fæst út úr ferlinu á geta verið u.þ.b. tvöfalt meiri en orkan sem fer í að hita rafgasið. Vetni er eina efnið sem þarf í þessa orkuframleiðslu og geislamengun frá ferlinu er óveruleg.
(Sjá frétt The Guardian 9. mars).

Endurnýjanleg orka komin fram úr kolunum

Á árinu 2017 framleiddu þjóðir Evrópusambandsins í fyrsta sinn meiri raforka úr endurnýjanlegum orkugjöfum en úr kolum, að því er fram kemur í nýrri skýrslu Sandbag. Framleiðsla endurnýjanlegrar raforku á árinu nam samtals 679 terawattstundum (Twh) en 669 Twh komu frá kolum, sem er um helmingi minna en fyrir fimm árum. Bretland og Þýskaland eiga stærstan þátt í auknum hlut endurnýjanlegrar orku, eða um 56% af heildaraukningunni síðustu þrjú ár. Á árinu 2017 ákváðu stjórnvöld í Hollandi, Ítalíu og Portúgal að stefna að því að leggja kol af sem orkugjafa, en á sama tíma jókst kolanotkun á Spáni. Sömuleiðis er þróunin hæg í Austur-Evrópu.
(Sjá fréttatilkynningu Sandbag 2. febrúar).

LED-ljós stuðla að ljósmengun

Aukin notkun orkusparandi LED-lýsingar hefur leitt til aukinnar ljósmengunar, enda er LED-lýsing mun ódýrari í rekstri en hefðbundin lýsing. Í nýrri úttekt sem sagt er frá í vísindatímaritinu Science Advances kemur fram að það flatarmál jarðar sem lýst er upp með manngerðum ljósum hafi stækkað um 2,2% á ári á tímabilinu 2012-2016. Mest er aukningin í Afríku, Suður-Ameríku og Asíu á svæðum sem hingað til hafa einungis verið lýst upp með dagsbirtunni. Höfundar úttektarinnar gera ráð fyrir að þessi þróun haldi áfram og benda á að þetta feli í sér ljósmengun sem geti haft alvarlegar afleiðingar fyrir dýr, plöntur og aðrar lífverur, þ.m.t. menn. Ljós hefur m.a áhrif á náttúrulega klukku lífvera og aukin lýsing getur stuðlað að svefntruflunum og jafnvel heilsuvandamálum á borð við sykursýki, háþrýsting og þunglyndi.
(Sjá frétt Aktuell hållbarhet 22. desember).

Öll raforka á Kosta Ríka endurnýjanleg í 300 daga á þessu ári

Það sem af er þessu ári hefur Kosta Ríka notað eingöngu endurnýjanlega raforku í samtals 300 daga. Þetta er nýtt met þar í landi, en árið 2015 náðust samtals 299 dagar. Nú koma um 99,6% af raforku landsins frá endurnýjanlegum orkugjöfum, þar af 78,3% frá vatnsorku, 10,3% frá vindorku, 10,2% frá jarðvarma og 0,8% frá sólarorku og lífmassa. Almennt er litið á Kosta Ríka sem fyrirmynd annarra þjóða í umhverfismálum. Þarlend stjórnvöld hafa látið til sín taka á fleiri sviðum en í orkugeiranum og m.a. tekið ákvörðun um að banna allt einnota plast fyrir árið 2021.
(Sjá frétt EcoWatch 21. nóvember).

Orkugeymslugeirinn gæti sexfaldast fyrir 2030

Áætlað er að árið 2030 verði umsvif í orkugeymslu á heimsvísu sexföld á við það sem þau voru árið 2016. Þetta kemur fram í nýrri greiningu Bloomberg New Energy Finance, þar sem leiddar eru líkur að því að árið 2030 verði samanlögð orkugeymslugeta komin í 305 gígawattstundir. Þetta sé þó aðeins byrjunin. Um þessar mundir sé miklu fjármagni varið í tækniþróun á þessu sviði, kostnaður fari ört lækkandi og stóraukin nýting vindorku og sólarorku ýti undir þróunina. Orkugeymsla muni fyrirsjáanlega gegna veigamiklu hlutverki í orkukerfum framtíðarinnar.
(Sjá frétt CleanTechnica 21. nóvember).

Hægt að framleiða raforku úr tárum

Vísindamenn við háskólann í Hlymreki á Írlandi (University of Limerick) hafa komist að því að hægt er að framleiða raforku úr lýsósímkristöllum, en lýsósím er prótein sem m.a. er að finna í tárum, munnvatni, mjólk og eggjahvítu. Kristallarnir búa yfir hæfileika til að breyta hreyfiorku í raforku, og öfugt, sem þýðir m.a. að þeir gefa frá sér rafstraum undir þrýstingi. Þeir eru með öðrum orðum svonefndir þrýstirafkristallar (e. piezoelectric crystals). Kvars og fleiri efni hafa þennan sama eiginleika, sem þegar er notaður í titrara í farsímum o.fl. Lýsósím hefur hins vegar þann kost umfram önnur efni með þessa eiginleika að vera af líffræðilegum uppruna og laust við eituráhrif.
(Sjá frétt ENN 2. október).

Kolefni á föstu formi unnið úr koltvísýringi

Japanskir og kínverskir vísindamenn sem unnið hafa að þróun litíum-loft-rafhlöðu hafa fyrir tilviljun uppgötvað aðferð sem hugsanlega er hægt að beita til að framleiða kolefnisduft og hreint súrefni úr koltvísýringi andrúmsloftsins. Á þessu stigi dugar aðferðin einungis fyrir óblandaðan koltvísýring en ef takast mætti að beita henni á koltvísýring í andrúmslofti gæti það opnað alveg nýja möguleika í kolefnisbindingu. Nýjungin felst ekki síst í því að ná kolefninu á föstu formi í stað þess að þurfa að fást við lofttegundir sem síðan þarf að þjappa eða breyta í vökva með tilheyrandi orkueyðslu. Fræðilega séð mætti nota sömu aðferð til að hreinsa tilteknar mengandi lofttegundir úr andrúmsloftinu.
(Sjá frétt Science Daily 9. ágúst).

Líkamshiti nýttur til húshitunar

Í haust verður hleypt af stokkunum evrópsku verkefni þar sem leitað verður leiða til að nýta afgangsvarma frá ýmsum athöfnum í þéttbýli til upphitunar húsnæðis. Sjónum verður beint að mismunandi hitagjöfum í þeim borgum sem taka þátt í verkefninu, svo sem afgangsvarma frá loftræstikerfum, fráveitukerfum og viftum í lestargöngum. Talið er að nái megi fram verulegum orkusparnaði með því að fullnýta þennan varma í fjarvarmaveitum. Sænska ráðgjafarstofan IVL stýrir verkefninu en heildarkostnaðaráætlun þess hljóðar upp á 4 milljónir evra (um 500 milljónir ísl. kr.).
(Sjá frétt Aktuell hållbarhet 16. ágúst).

Ný aðferð við rafgreiningu lofar góðu

bubble-news-web-160Vísindamenn við Ríkisháskólann í Washington (Washington State University (WSU)) hafa fundið nýja leið til að framleiða vetni með rafgreiningu vatns. Aðferðin byggir á því að nota nanóagnir úr kopar sem efnahvata í samspili við kóbalt, en hingað til hafa menn yfirleitt notað mun dýrari málma, svo sem platínu eða rúten. Nýja aðferðin er ekki einungis mun ódýrari en fyrri aðferðir, heldur skilar hún jafngóðum eða betri árangri í rafgreiningu. Þessi uppgötvun er talin geta flýtt fyrir þróun vetnisframleiðslu, sem er í senn fjárhagslega hagkvæm, umhverfisvæn og orkunýtin. Þetta kann því að vera mikilvægt framfaraskref í orkugeymslu og nýtingu endurnýjanlegrar orku.
(Sjá frétt á heimasíðu WSU 25. október).

Meira en helmingur nýrrar orku endurnýjanleg

5763-160Á árinu 2015 var uppsett afl nýrra orkuvera sem framleiða endurnýjanlega orku í fyrsta sinn meira en nýrra orkuvera sem byggja á brennslu jarðefnaeldsneytis. Nettóviðbótin í endurnýjanlega orkugeiranum var 153 GW, sem er 15% aukning frá árinu áður. Dr Fatih Birol, framkvæmdastjóri Alþjóða orkumálastofnunarinnar (IEA), segir að heimsbyggðin sé að verða vitni að orkuskiptum sem muni gerast mjög hratt. Horfur séu á að Evrópubúar séu að tapa frumkvæðinu á þessu sviði til Kínverja og að líkja megi Evrópu við maraþonhlaupara sem hafi fengið dágóða forgjöf í startinu, verið langfyrstur eftir hálft maraþon en sé nú farinn að þreytast, þannig að hinir hlaupararnir séu að síga fram úr hægt og örugglega.
(Sjá frétt The Guardian í dag).