Kjarnasamruni handan við hornið?

Vísindamenn við Tækniháskólann í Massachusetts (MIT) telja sig hafa fundið leið til að framleiða hagkvæma varmaorku með kjarnasamruna innan 15 ára. Árum saman hafa menn haft á orði að kjarnasamruni sé orkugjafi framtíðarinnar og að þannig muni það alltaf verða. Hugmyndin gengur sem fyrr út á að virkja orku sem losnar þegar tvær vetnisfrumeindir sameinast og verða að helíumfrumeind, en til að koma þessu efnaferli af stað þarf hitastig upp á nokkurhundruð milljón °C, sem er langt umfram það sem nokkurt fast efni þolir. Vísindamennirnir við MIT telja sig geta leyst þetta vandamál með ofurseglum sem byggjast á ofurleiðniefninu yttríum-baríum-koparoxíði (YBCO). Þessir seglar eiga að geta haldið glóheitu rafgasi (plasma) í lausu lofti þannig að það snerti aldrei veggi ofnsins sem samruninn á sér stað í. Stærð ofnsins getur þá verið lítið brot af því sem áður hefur verið talið mögulegt og orkan sem fæst út úr ferlinu á geta verið u.þ.b. tvöfalt meiri en orkan sem fer í að hita rafgasið. Vetni er eina efnið sem þarf í þessa orkuframleiðslu og geislamengun frá ferlinu er óveruleg.
(Sjá frétt The Guardian 9. mars).

Raforkuframleiðsla með kjarnasamruna í smáum stíl senn möguleg

150925085550_1_540x360Sænskir og íslenskir vísindamenn telja sig hafa fundið leið til að framleiða raforku og varmaorku með kjarnasamruna í smáum stíl. Aðferðin er frábrugðin fyrri aðferðum að því leyti að eingöngu er notast við tvívetni (deuteríum) í stað þrívetnis (trítíum) og við samrunann myndast nær engar nifteindir heldur fyrst og fremst þungar rafeindir (muon) sem hafa þann kost að vera í senn rafhlaðnar og lítt skaðlegar. Vísindamennirnir telja að innan fárra ára verði hægt að nota þessa aðferði til orkuframleiðslu.
(Sjá frétt ScienceDaily í dag).

Kjarnasamruni í sjónmáli?

The magnetic coils inside the compact fusion (CF) experiment are critical to plasma containment, as pictured in this undated handout photoKjarnasamruni til raforkuframleiðslu gæti orðið að veruleika innan 10 ára að mati sérfræðinga bandaríska fyrirtækisins Lockheed Martin. Fyrirtækið hefur þróað litla samrunaofna (um 6 fermetra) með 100 MW uppsett afl, sem mögulega gætu verið komnir í framleiðslu og notkun eftir um 10 ár. Framleiðsla rafmagns með kjarnasamruna er bæði öruggari og skilvirkari en framleiðsla með kjarnaklofnun eins og gert er í kjarnorkuverum samtímans, auk þess sem geislavirkur úrgangur frá vinnslunni er hverfandi. Notast er við tvívetni og þrívetni í kjarnasamrunanum, en fyrirtækið telur að í framtíðinni verði hægt að notast við efni sem framleiða engan geislavirkan úrgang.
(Sjá frétt Planet Ark í dag).