Vísindamenn við háskólann í Hlymreki á Írlandi (University of Limerick) hafa komist að því að hægt er að framleiða raforku úr lýsósímkristöllum, en lýsósím er prótein sem m.a. er að finna í tárum, munnvatni, mjólk og eggjahvítu. Kristallarnir búa yfir hæfileika til að breyta hreyfiorku í raforku, og öfugt, sem þýðir m.a. að þeir gefa frá sér rafstraum undir þrýstingi. Þeir eru með öðrum orðum svonefndir þrýstirafkristallar (e. piezoelectric crystals). Kvars og fleiri efni hafa þennan sama eiginleika, sem þegar er notaður í titrara í farsímum o.fl. Lýsósím hefur hins vegar þann kost umfram önnur efni með þessa eiginleika að vera af líffræðilegum uppruna og laust við eituráhrif.
(Sjá frétt ENN 2. október).
Greinasafn fyrir merki: Írland
Vistkerfisþjónusta djúpsjávarfiska
Djúpsjávarfiskar fanga og geyma um milljón tonn af koltvísýringi á hverju ári í lögsögu Bretlands og Írlands, að því er fram kemur í nýrri rannsókn Háskólans í Southampton. Fiskarnir nærast á fæðu sem á uppruna sinn á yfirborðinu og berst niður til þeirra í gegnum fæðukeðjuna. Þannig er kolefni selflutt frá yfirborði sjávar og niður á djúpsævi. Þar sem fiskarnir halda sig á miklu dýpi alla ævi helst kolefnið á hafsbotni og endar í setlögum í stað þess að losna aftur út í andrúmsloftið þegar lífverurnar rotna. Þessi vistkerfisþjónusta djúpsjávarfiskanna væri metin á um 10 milljónir punda (tæpa tvo milljarða ísl. kr.) ef hægt væri að selja hana sem kolefnisjöfnun.
(Sjá frétt Science Daily 3. júní).
Reynt að minnka sóun á írskum veitingastöðum
Írskir veitingastaðir leita nú leiða til að draga úr sóun matvæla, en árlega er þar hent mat fyrir um 125 milljónir sterlingspunda (um 25 milljarða ísl. kr). Lög sem tóku gildi fyrir tveimur árum og gera veitingastöðum skylt að skilja matarúrgang frá öðrum úrgangi, hafa beint sjónum manna að vandamálinu en ekki dugað til að draga verulega úr sóuninni. Í nýlegri skýrslu kemur fram að stærstur hluti úrgangsins, um 65%, séu matarleifar af diskum gesta, en úrgangur frá matreiðslunni kemur þar næst á eftir. Skilvirkasta aðferðin til að draga úr þessari sóun er að minnka skammtana.
(Sjá frétt EDIE í gær).
Samfélagsleg ábyrgð borgar sig
Rúm 70% framkvæmdastjóra í írskum fyrirtækjum telja að vinna fyrirtækjanna að samfélagslegri ábyrgð hafi skilað sér í bættri afkomu. Þá telja 56% framkvæmdastjóranna að þessi vinna hafi bætt samkeppnisstöðu þeirra í útboðum, dregið úr starfsmannaveltu og bætt ímynd fyrirtækjanna almennt. Þetta er meðal þess sem kemur fram í niðurstöðum umfangsmikillar könnunar meðal írskra fyrirtækja, sem kynntar verða í þessari viku.
(Sjá nánar á heimasíðu Business in the Community)