LED-ljós stuðla að ljósmengun

Aukin notkun orkusparandi LED-lýsingar hefur leitt til aukinnar ljósmengunar, enda er LED-lýsing mun ódýrari í rekstri en hefðbundin lýsing. Í nýrri úttekt sem sagt er frá í vísindatímaritinu Science Advances kemur fram að það flatarmál jarðar sem lýst er upp með manngerðum ljósum hafi stækkað um 2,2% á ári á tímabilinu 2012-2016. Mest er aukningin í Afríku, Suður-Ameríku og Asíu á svæðum sem hingað til hafa einungis verið lýst upp með dagsbirtunni. Höfundar úttektarinnar gera ráð fyrir að þessi þróun haldi áfram og benda á að þetta feli í sér ljósmengun sem geti haft alvarlegar afleiðingar fyrir dýr, plöntur og aðrar lífverur, þ.m.t. menn. Ljós hefur m.a áhrif á náttúrulega klukku lífvera og aukin lýsing getur stuðlað að svefntruflunum og jafnvel heilsuvandamálum á borð við sykursýki, háþrýsting og þunglyndi.
(Sjá frétt Aktuell hållbarhet 22. desember).

LED-ljós í alla ljósastaura í Delhi

dehliOrkumálaráðherra Indlands tilkynnti á dögunum að á næstu tveimur árum verði öllum ljósaperum í ljósastaurum í Delhi skipt út fyrir LED-perur. Áætlað er að aðgerðin muni skila árlegum sparnaði upp á um 580 milljónir breskra punda (um 114 milljarða ísl. kr.). Samkvæmt yfirlýsingu ráðherrans mun aðgerðin einnig ná til heimila, enda nota þau um helming allrar raforku í borginni. Um 20 milljón ljósaperum verður skipt út fram til ársins 2017 og þar sem aðgerðin kostar aðeins um 250 milljónir punda mun hún borga sig upp á fyrsta ári. Auk fjárhagslegs sparnaðar er aðgerðinni ætlað að minnka álagið á raforkukerfi Indlands þar sem áætlað er að eftirspurn eftir raforku muni aukast um 60% árlega næstu 5 ár. LED-ljós nýta orku mun betur en bæði hefðbundnar ljósaperur og flúrperur auk þess sem þær endast um 50 sinnum lengur en hefðbundnar perur og um 8-10 sinnum lengur en flúrperur.
(Sjá frétt EDIE 2. september).

LED-ljós gegn matarúrgangi

LED Food EDIETalsmenn velska fyrirtækisins Sedna halda því fram að draga megi verulega úr úreldingu matvöru í verslunum með því einu að nota díóðuljós (LED) í stað hefðbundinnar lýsingar þar sem ferskri matvöru er stillt upp. Díóðuljósin hafa það fram yfir hefðbundin ljós að senda hvorki frá sér hitageisla, útfjólubláa geisla né innrauða geisla. Séu þau notuð er því minni hætta á því en ella að matvæli „svitni“ í umbúðunum og verði óseljanleg. Samtals er áætlað að um 300.000 tonn af matvælum fari til spillis í breskum verslunum árlega, einkum vegna ófullnægjandi geymslu.
(Sjá frétt EDIE í dag).

Eingöngu díóðuljós í IKEA 2016

Frá og með árinu 2016 munu hvorki glóperur né sparperur fást í verslunum IKEA, heldur eingöngu díóðuljós (e. light-emitting diodes (LED)). Með þessu gengur IKEA lengra en gerð er krafa um, en sem kunnugt er hefur innflutningur á glóperum af tilteknum styrkleika verið bannaður í löndum ESB. Díóðuljós eru enn talsvert dýrari en glóperur og sparperur, en þau eiga að geta enst í u.þ.b. 20 ár, þurfa mjög litla orku miðað við ljósmagn og innihalda ekki kvikasilfur. Líklegt má telja að ákvörðun IKEA flýti fyrir því að díóðuljós verði fáanleg í góðu úrvali og á viðráðanlegu verði, umhverfi og efnahag til hagsbóta.
(Sjá nánar í fréttatilkynningu IKEA í Svíþjóð 1. október).