Kjarnasamruni handan við hornið?

Vísindamenn við Tækniháskólann í Massachusetts (MIT) telja sig hafa fundið leið til að framleiða hagkvæma varmaorku með kjarnasamruna innan 15 ára. Árum saman hafa menn haft á orði að kjarnasamruni sé orkugjafi framtíðarinnar og að þannig muni það alltaf verða. Hugmyndin gengur sem fyrr út á að virkja orku sem losnar þegar tvær vetnisfrumeindir sameinast og verða að helíumfrumeind, en til að koma þessu efnaferli af stað þarf hitastig upp á nokkurhundruð milljón °C, sem er langt umfram það sem nokkurt fast efni þolir. Vísindamennirnir við MIT telja sig geta leyst þetta vandamál með ofurseglum sem byggjast á ofurleiðniefninu yttríum-baríum-koparoxíði (YBCO). Þessir seglar eiga að geta haldið glóheitu rafgasi (plasma) í lausu lofti þannig að það snerti aldrei veggi ofnsins sem samruninn á sér stað í. Stærð ofnsins getur þá verið lítið brot af því sem áður hefur verið talið mögulegt og orkan sem fæst út úr ferlinu á geta verið u.þ.b. tvöfalt meiri en orkan sem fer í að hita rafgasið. Vetni er eina efnið sem þarf í þessa orkuframleiðslu og geislamengun frá ferlinu er óveruleg.
(Sjá frétt The Guardian 9. mars).

Stafræn merking efna gefur nýja möguleika

NeilMiklir möguleikar kunna að liggja í svonefndu „sameindalegói“ sem búið er til með því að setja stafræn merki í minnstu einingar sem notaðar eru við framleiðslu á vörum. Þetta auðveldar mjög aðskilnað efna í vörunni og skapar ný tækifæri í endurvinnslu efnis sem annars hefði orðið að úrgangi að notkun lokinni. Þar með stuðlar hugmyndin að hringrásarsamfélagi þar sem úrgangur fellur ekki til. Efnið felur þá í sér upplýsingar um hvað hægt sé að gera við það, öfugt við úrgang sem berst á urðunarstaði samtímans og inniheldur engar upplýsingar. Neil Gershenfeld, prófessor við Tækniháskólann í Massachusetts kynnti þessar hugmyndir á heimsviðskiptaráðstefnunni í Davos í síðustu viku, en tók jafnframt fram að nokkur ár myndu líða áður en þessi þróun færi að hafa veruleg áhrif í heiminum.
(Sjá frétt EDIE í dag).