Sjöföldun í útflutningi á lífrænum vörum frá Danmörku

okologiÚtflutningur á lífrænt vottuðum vörum frá Danmörku hefur aukist um 12% á einu ári, en árið 2014 var verðmæti þessa útflutnings samtals um 1.721 milljón danskra króna (um 32,5 milljarðar ísl. kr.). Útflutningurinn hefur sjöfaldast á síðustu 10 árum. Að sögn markaðsstjóra samtakanna Økologisk Landsforening má rekja aukna sölu til þeirrar miklu reynslu af lífrænni ræktun sem byggst hefur upp í Danmörku og þess að danskir framleiðendur bjóða oft upp á vörur og vöruflokka sem ekki eru framleiddir lífrænt í innflutningslöndunum. Stærstu vöruflokkarnir eru mjólkurvörur og egg, en þessir vöruflokkar eru samtals um 51% lífræns útflutnings. Lífrænt vottaðar tilbúnar matvörur, svo sem frosið grænmeti og hafragrautur, hafa einnig náð miklum vinsældum. Þýskaland er stærsta innflutningslandið en þangað fara um 48% af þeim lífrænu vörum sem fluttar eru út frá Danmörku.
(Sjá frétt á heimasíðu Økologisk Landsforening 7. desember).

Eingöngu lífrænt hveiti í hillunum hjá Irma

indkoeb-mel_morgenmadFramvegis mun danska verslunarkeðjan Irma eingöngu selja lífrænt hveiti, en hlutdeild lífræns hveitis í heildarhveitisölunni var áður kominn upp í 87%. Ákvörðun Irma byggir m.a. á því viðhorfi stjórnenda keðjunnar að lífrænt vottað hveiti sé bæði bragðbetra og betra í bakstur en annað hveiti, auk þess sem umhverfisáhrifin eru minni. Samanlögð markaðshlutdeild lífrænna matvæla hjá Irma nálgast nú 30%, sem er um fjórfalt hærra hlutfall en landsmeðaltalið í Danmörku. Irma hefur sett sér það markmið að þetta hlutfall verði orðið 50% árið 2025. Hveiti er ekki fyrsta fæðutegundin sem nú fæst eingöngu lífræn hjá Irma, því að í sumar úthýsti keðjan gulrótum og bönunum sem ekki eru með lífræna vottun.
(Sjá frétt á heimasíðu Økologisk Landsforening í gær).

Sala á lífrænum matvælum 35% meiri en í fyrra

ImageGenÍ Danmörku hefur sala á lífrænt vottuðum ávöxtum og grænmeti aukist um 35% það sem af er árinu miðað við sama tíma í fyrra. Salan er nú orðin fimmfalt meiri en hún var fyrir 10 árum. Einstakar verslunarkeðjur, þ.m.t. Irma, eru hættar að selja tilteknar tegundir af grænmeti og ávöxtum sem ekki eru með lífræna vottun. Að sögn talsmanns Irmu hefur heildarsala á gulrótum aukist þar um 20% frá því að óvottuðum gulrótum var úthýst þaðan í síðasta mánuði. Dansk Supermarked bauð í fyrsta sinn upp á lífrænt vottað grænkál fyrir ári síðan. Vottaða grænkálið hefur náð þvílíkum vinsældum að óvottað grænkál er ekki lengur til sölu í verslunum keðjunnar.
(Sjá frétt á heimasíðu Økologisk Landsforening 3. september).

Gulrótum og bönunum úr hefðbundinni ræktun úthýst hjá Irma

ImageGenUm miðjan þennan mánuð hætti danska verslunarkeðjan Irma að selja gulrætur og banana sem ekki eru með lífræna vottun. Keðjan hefur sett sér það markmið að árið 2025 verði markaðshlutdeild lífrænnar matvöru komin upp í 50% í verslunum keðjunnar. Sala á lífrænum matvörum jókst um 10% á fyrri hluta þessa árs samanborið við sama tíma í fyrra og nálgast nú 30% af allri matvörusölunni. Óvottaðar gulrætur og bananar voru farin að seljast svo illa að það var ekki talið svara kostnaði að halda áfram að bjóða kaupendum þessar vörur. Sala á lífrænt vottuðum bönunum var komin í 92% af heildinni og fyrir gulrætur var talan komin í 85%.
(Sjá frétt á heimasíðu Økologisk Landsforening 10. ágúst).

Danir framtíðarinnar kaupa 80% lífrænt

LífræntDKLífrænar matvörur verða í miklum meirihluta í innkaupakörfum danskra neytenda í framtíðinni ef marka má niðurstöður úr athugun á neysluvenjum fólks sem flokkast sem brautryðjendur eftir aðferðafræði sem fyrirtækið Firstmove hefur þróað. Um 3% neytenda falla í þennan flokk og meðal þessa fólks eru lífræn matvæli komin í um 80% af innkaupunum. Þetta þykir gefa góða vísbendingu um þróun markaðarins á næstu árum.
(Sjá frétt á heimasíðu Økologisk Landsforening 29. maí).

Sala á Fairtrade-vörum í Svíþjóð jókst um 37% milli ára

fairtrade_160Sala á Faitrade-vottuðum vörum jókst um 37% í Svíþjóð milli áranna 2013 og 2014 samkvæmt markaðskönnun Fairtrade-samtakanna. Sé litið á fjóra stærstu vöruflokkana sést að sala á bönunum jókst um 95% milli ára, sala á víni um 42%, sala á blómum um 40% og sala á kaffi um 24%. Sala á Faitrade-vottuðum vörum í Svíþjóð nemur nú um 2,7 milljörðum sænskra króna á ári (um 42 milljörðum ísl. kr.). Aukin sala á Fairtrade-vörum helst í hendur við aukna eftirspurn eftir lífrænt vottuðum vörum, en um 65% af Fairtrade-vörunum sem seldar voru í Svíþjóð 2014 voru einnig með lífræna vottun. Tölurnar gefa til kynna að neytendur leggi æ meira áherslu á sjálfbæran uppruna vöru og að bændum í þróunarlöndunum séu tryggðar ásættanlegar vinnuaðstæður.
(Sjá frétt sænsku Faitrade samtakanna 23. apríl).

Er grænt te allra meina bót?

gront_te_160Varnarefni fundust í öllum tegundum af grænu tei sem sænsku neytendasamtökin Råd&Rön rannsökuðu á dögunum. Rannsóknin náði til 12 tetegunda og 300 varnarefna sem notuð eru í landbúnaði. Tvær tegundir fengu falleinkunn, en þær voru frá fyrirtækjunum Lipton og Garant og innihéldu hvor um sig um 15 varnarefni. Í bragðbættu grænu tei frá Garant fannst m.a. fimmfalt meira af skordýraeitrinu asetamípríð en leyfilegt er samkvæmt reglum ESB og Lipton-teið innihélt sexfalt leyfilegt magn af rotvarnarefninu fenýlfenól. Lífrænt te frá Clippers fékk bestu einkunnina. Grænt te er gjarnan markaðssett sem heilsudrykkur vegna andoxunarefna sem fyrirfinnast í því frá náttúrunnar hendi.
(Sjá frétt Råd&Rön 27. janúar).

Skólaeldhús notar 100% lífrænt vottað

personal-byskolan_160Skólaeldhús Byskolans í Södra Sandby í Svíþjóð notar nú eingöngu lífrænt vottaða matvöru, en kostnaður við hverja máltíð hefur þó ekki hækkað frá því sem áður var. Á sama tíma hafa gæði máltíða aukist og matarsóun minnkað. Að sögn kokkanna í eldhúsinu réðu nokkur undirstöðuatriði úrslitum um að svo vel tókst til, þ.á.m. að hætt var að kaupa aðsendan mat frá stóreldhúsum. Í framhaldi af því var lögð mikil vinna í að finna framleiðendur og birgja sem seldu lífrænt vottaða vöru. Þá hefur sveigjanleiki skipt miklu máli, þ.e. að láta framboð á lífrænum vörum á hverjum tíma stýra matseðlinum. Einnig þarf eldhúsið að sjá um hluta framleiðslunnar, svo sem að búa til lífrænar pylsur þar sem slík vara fæst ekki á markaðnum.
(Sjá frétt á heimasíðu KRAV 16. janúar).

Lífræn vottun í Danmörku í 25 ár

okologisk_160Danska Ø-merkið fyrir lífræna vottun fagnar nú 25 ára afmæli. Merkið hefur átt stóran þátt í að gera Dani að þeirri þjóð sem kaupir mest lífrænt, en um 8% af öllum matarinnkaupum í Danmörku eru nú lífrænt vottuð. Síðan vottunin var sett á laggirnar hefur danska þjóðin komið í veg fyrir að rúmlega þrjár milljónir tonna af eiturefnum sleppi út í náttúruna og á sama tíma verndað um 4.300 milljarða lítra af grunnvatni fyrir mengun af völdum varnarefna með því einu að kaupa lífrænt vottaðar vörur. Aðstandendur vottunarinnar telja að velgengni Ø-merkisins megi rekja til þess trausts sem merkingin hefur unnið sér á dönskum markaði. Um 98% danskra neytenda þekkja til merkisins og um 80% treysta því fullkomlega. Nú kaupa um 45% danskra neytenda lífrænt vottaðar vörur vikulega og um 70% mánaðarlega. Danir áætla að sala á lífrænt vottuðum vörum muni tvöfaldast á næstu 25 árum.
(Sjá frétt Økologisk Landsforening í dag).

Mikið af varnarefnum í grænmeti og ávöxtum

Frugt_og_gr_nt_er_f_898417yUm 66% af ávöxtum og 33% af grænmeti á dönskum markaði innihalda skaðleg efni samkvæmt nýrri rannsókn Matvælastofnunar Danmerkur (Fødevarestyrelsen) og Matvæladeildar Tækniháskóla Danmerkur (DTU). Innfluttar vörur koma sérstaklega illa út úr rannsókninni, enda er erfiðara fyrir yfirvöld í Danmörku að fylgjast með og stjórna notkun efna í framleiðslu utan landsteinana. Flestar tegundir af jarðarberjum, perum og eplum sem rannsakaðar voru innihéldu varnarefnaleifar, en þar var yfirleitt um að ræða skordýra- eða plöntueitur sem sat utan á ávöxtunum. Varnarefnin innihéldu yfirleitt hormónaraskandi efni sem geta haft áhrif á þroska barna auk þess að stuðla að offitu. Þar sem svipuð efni eru notuð við framleiðslu ólíkra afurða getur hver einstaklingur innbyrgt töluvert magn þegar á heildina er litið. Til að forðast skaðleg efni í matvöru hvetur Matvælastofnun Danmerkur fólk til að velja innlenda vöru og lífrænt vottaða ef mögulegt er.
(Sjá frétt Politiken í dag).