Danir stefna að stórauknum útflutningi á lífrænum vörum

Samtök lífrænna framleiðenda í Danmörku (Økologisk Landsforening) gera ráð fyrir að útflutningur Dana á lífrænt vottuðum vörum muni nema um 3 milljörðum danskra króna á þessu ári (um 50 milljörðum ísl. kr.). Á síðustu fjórum árum hefur þessi útflutningur fjórfaldast. Í samræmi við þetta ætla Danir sér stóra hluti á hinni árlegu kaupstefnu BioFach sem hefst í Nürnberg í Þýskalandi nk. miðvikudag, þar sem þeir hyggjast leggja sérstaka áherslu á nýja vöruflokka.
(Sjá frétt á heimasíðu Økologisk Landsforening í dag).

Sjöföldun í útflutningi á lífrænum vörum frá Danmörku

okologiÚtflutningur á lífrænt vottuðum vörum frá Danmörku hefur aukist um 12% á einu ári, en árið 2014 var verðmæti þessa útflutnings samtals um 1.721 milljón danskra króna (um 32,5 milljarðar ísl. kr.). Útflutningurinn hefur sjöfaldast á síðustu 10 árum. Að sögn markaðsstjóra samtakanna Økologisk Landsforening má rekja aukna sölu til þeirrar miklu reynslu af lífrænni ræktun sem byggst hefur upp í Danmörku og þess að danskir framleiðendur bjóða oft upp á vörur og vöruflokka sem ekki eru framleiddir lífrænt í innflutningslöndunum. Stærstu vöruflokkarnir eru mjólkurvörur og egg, en þessir vöruflokkar eru samtals um 51% lífræns útflutnings. Lífrænt vottaðar tilbúnar matvörur, svo sem frosið grænmeti og hafragrautur, hafa einnig náð miklum vinsældum. Þýskaland er stærsta innflutningslandið en þangað fara um 48% af þeim lífrænu vörum sem fluttar eru út frá Danmörku.
(Sjá frétt á heimasíðu Økologisk Landsforening 7. desember).