Svíar og Danir kaupa mest lífrænt

matkasse-160x82Svíar kaupa nú hlutfallslega jafnmikið af lífrænt vottuðum vörum og Danir, en Danir hafa hingað til verið fremstir í heimi hvað þetta varðar. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu frá Ekoweb, sem um árabil hefur sérhæft sig í að greina markaðinn fyrir lífrænar vörur. Í skýrslunni kemur fram að um mitt ár 2016 hafi markaðshlutdeild lífrænt vottaðrar vöru í stærstu matvöruverslunarkeðjunum og í Áfengisverslun ríkisins (Systembolaget) verið komin í 9%, sem er sama hlutfall og í Danmörku. Salan í Svíþjóð hafði þá aukist um 23% frá sama tímabili 2015. Forsvarsmenn vottunarstofunnar KRAV í Svíþjóð hafa sett sér það markmið að Svíar verði komnir upp fyrir Dani á þessu sviði í árslok og þar með orðnir „bestir í heimi“. Úrslitin í þeirri keppni verða hugsanlega ljós 26. janúar 2017. Hvað lífræna framleiðslu varðar eiga Svíar lengra í land, en þar trónir Austurríki í toppnum.
(Sjá frétt á heimasíðu KRAV í dag).