Netflix og Amazon eru í hópi þeirra þjónustuaðila á netinu sem nota hlutfallslega mest af kolum og öðru jarðefnaeldsneyti til að knýja starfsemi sína, að því er fram kemur í nýrri skýrslu Greenpeace um orkunotkun internetfyrirtækja (Clicking Clean). Apple, Google og Facebook eru hins vegar í hópi þeirra netfyrirtækja sem komin er lengst í að nota eingöngu endurnýjanlega orku. Upplýsingatæknigeirinn notaði um 7% of allri raforku sem framleidd var í heiminum árið 2012 og er búist við að þessi tala fari jafnvel yfir 12% á árinu 2017. Streymi myndefnis vegur þyngst í þessum efnum. Hlutur þess í netumferð var 63% árið 2015 og samkvæmt spám verður hann kominn í 80% árið 2020. Netfyrirtækin, og þá ekki síst þau sem dreifa myndefni, hafa því mikil áhrif á það hvernig orkumarkaður heimsins og þar með losun gróðurhúsalofttegunda mun þróast næstu ár.
(Sjá fréttatilkynningu Greenpeace 10. janúar).
Greinasafn fyrir merki: raforka
Ný aðferð við rafgreiningu lofar góðu
Vísindamenn við Ríkisháskólann í Washington (Washington State University (WSU)) hafa fundið nýja leið til að framleiða vetni með rafgreiningu vatns. Aðferðin byggir á því að nota nanóagnir úr kopar sem efnahvata í samspili við kóbalt, en hingað til hafa menn yfirleitt notað mun dýrari málma, svo sem platínu eða rúten. Nýja aðferðin er ekki einungis mun ódýrari en fyrri aðferðir, heldur skilar hún jafngóðum eða betri árangri í rafgreiningu. Þessi uppgötvun er talin geta flýtt fyrir þróun vetnisframleiðslu, sem er í senn fjárhagslega hagkvæm, umhverfisvæn og orkunýtin. Þetta kann því að vera mikilvægt framfaraskref í orkugeymslu og nýtingu endurnýjanlegrar orku.
(Sjá frétt á heimasíðu WSU 25. október).
Meira en helmingur nýrrar orku endurnýjanleg
Á árinu 2015 var uppsett afl nýrra orkuvera sem framleiða endurnýjanlega orku í fyrsta sinn meira en nýrra orkuvera sem byggja á brennslu jarðefnaeldsneytis. Nettóviðbótin í endurnýjanlega orkugeiranum var 153 GW, sem er 15% aukning frá árinu áður. Dr Fatih Birol, framkvæmdastjóri Alþjóða orkumálastofnunarinnar (IEA), segir að heimsbyggðin sé að verða vitni að orkuskiptum sem muni gerast mjög hratt. Horfur séu á að Evrópubúar séu að tapa frumkvæðinu á þessu sviði til Kínverja og að líkja megi Evrópu við maraþonhlaupara sem hafi fengið dágóða forgjöf í startinu, verið langfyrstur eftir hálft maraþon en sé nú farinn að þreytast, þannig að hinir hlaupararnir séu að síga fram úr hægt og örugglega.
(Sjá frétt The Guardian í dag).
Endurnýjanleg orka við tærnar á okkur!
Vísindamenn við Háskólann í Wisconsin-Madison (UW) hafa þróað ódýrt, endurnýjanlegt og endingargott gólfefni sem getur framleitt raforku úr fótataki þeirra sem um gólfið ganga. Uppistaðan í efninu eru nanótrefjar úr sellulósa sem nóg er af í viðarúrgangi og fleiri aukaafurðum úr jurtaríkinu og byggir raforkuframleiðslan á snertingu sérstaklega meðhöndlaðra trefja við ómeðhöndlaðar trefjar. Hver eining getur verið allt niður í 1 mm að þykkt og er hægt að byggja gólfefnið upp úr mörgum slíkum lögum. Aðferðin hentar einkar vel í stórmörkuðum og á öðrum fjölförnum stöðum, en þar ætti að vera hægt að framleiða umtalsvert magn af raforku með þessum hætti. Næsta verk vísindamannanna er að prófa efnið við raunverulegar aðstæður.
(Sjá frétt á heimasíðu UW í dag).
Sólarsellur með grafenfilmu gætu framleitt raforku í rigningu
Filma úr efninu grafen, sem hægt er að vinna úr grafíti, gæti gert það mögulegt að framleiða raforku í sólarsellum í rigningu. Grafen er tvívítt form kolefnis sem hefur þann eiginleika að leiða vel rafmagn og innihalda mikið af rafeindum sem geta ferðast óbundnar um efnið. Regnvatn inniheldur sölt sem leysast upp í jákvætt og neikvætt hlaðnar jónir. Þegar regndroparnir snerta yfirborð grafenfilmunnar tekur grafenið til sín óbundnar rafeindir en vatnið verður þeim mun ríkara af jákvætt hlöðnum jónum, svo sem natríum, kalsíum og ammóníumjónum. Þannig myndast tvöfalt lag rafeinda og jákvætt hlaðinna jóna og skilyrði skapast til að mynda spennu og rafstraum. Frekari þróun tækninnar getur aukið afköst sólarsella þar sem hægt verður að framleiða rafmagn þótt sólar njóti ekki.
(Sjá frétt Science Daily í dag).
Statoil stofnar tugmilljarða sjóð fyrir græna orku
Norski olíurisinn Statoil setti í dag á stofn sérstakan fjárfestingasjóð sem ætlað er að fjárfesta í verkefnum á sviði endurnýjanlegrar orku fyrir 1,7 milljarða norskra króna (rúmlega 25 milljarða ísl. kr.) á næstu 4-7 árum. Gert er ráð fyrir að þetta fé verði einkum lagt í uppbyggingu vindorku á landi og á hafi, sólarorku, orkugeymslu, orkuflutning, orkusparnað og snjallnetslausnir fyrir raforku.
(Sjá frétt á heimasíðu Statoil í dag).
1.000 km sólarvegur í Frakklandi
Frönsk stjórnvöld hyggjast leggja 1.000 km af sólarvegum á næstu 5 árum, en með sólarvegum er átt við vegi sem þaktir eru sólarsellum til raforkuframleiðslu. Ef allt gengur upp getur þessi alllangi vegarspotti séð um 5 milljónum manns fyrir raforku, en það samsvarar 8% af íbúum Frakklands. Um 4 metrar af sólarvegi eru taldir duga til að fullnægja raforkuþörf einnar fjölskyldu, að upphitun frátalinni. Að sögn Ségolène Royal, umhverfis- og orkumálaráðherra Frakklands, er þegar búið að bjóða verkið út og er gert ráð fyrir að fyrstu tilraunir með þessa nýjung verði gerðar í vor. Yfirborgð sólarveganna er gert úr 7 mm sólarfilmu sem hefur verið í þróun síðustu 5 ár og var tilbúin til framleiðslu í október 2015. Burðarþolið er nóg til að taka við umferð flutningabíla og viðnámið nóg til að vegirnir verði ekki óþægilega hálir. Ségolène Royal hefur lagt til að lagðir verði sérstakir skattar á bensín til að fjármagna vegabætur af þessu tagi, enda sé lag til þess nú þegar olíuverð er lágt.
(Sjá frétt Global Construction Review 26. janúar).
Fyrsti sólarorkuknúni flugvöllurinn
Alþjóðaflugvöllurinn Cochin í Keralaríki á Indlandi er fyrsti flugvöllurinn í heimi sem gengur eingöngu fyrir sólarorku. Þann 18. ágúst sl. voru teknar í notkun 46.000 sólarsellur á um 18 hektara svæði í grennd við flugvöllinn. Sólarorkuverið framleiðir um 50-60 MWst af raforku á sólarhring, en dagleg orkuþörf flugvallarins er um 48 MWst/sólarhring sem samsvarar orkunotkun u.þ.b. 10 þúsund heimila. Umframorkan er send inn á dreifikerfið og nýtist þannig öðrum raforkunotendum.
(Sjá frétt ENN í gær).
Þráðlaus gagnvirk hleðsla rafbíla í augsýn
Þýskir vísindamenn hafa kynnt frumgerð kerfis sem gerir það mögulegt að hlaða rafbíla þráðlaust með því að fella þar til gerðar rafspólur niður í yfirborð gatna. Samsvarandi búnaður í undirvagni bílanna tekur við hleðslunni og að sögn vísindamannanna dugar þessi tækni fyrir afl á bilinu 0,4-3,6 kW miðað við allt að 20 cm fríhæð bíla. Hugmyndin er ekki ný en fram til þessa hefur ekki verið mögulegt að koma hleðslu yfir svona langt bil. Þessi nýja tækni, sem kynnt verður á alþjóðlegu bílasýningunni í Frankfurt síðar í þessum mánuði, gefur einnig nýja möguleika á að skila rafmagni frá rafbílum inn á dreifikerfið. Með því eykst notagildi rafbíla sem orkugeymslu.
(Sjá frétt EDIE 2. september).
LED-ljós í alla ljósastaura í Delhi
Orkumálaráðherra Indlands tilkynnti á dögunum að á næstu tveimur árum verði öllum ljósaperum í ljósastaurum í Delhi skipt út fyrir LED-perur. Áætlað er að aðgerðin muni skila árlegum sparnaði upp á um 580 milljónir breskra punda (um 114 milljarða ísl. kr.). Samkvæmt yfirlýsingu ráðherrans mun aðgerðin einnig ná til heimila, enda nota þau um helming allrar raforku í borginni. Um 20 milljón ljósaperum verður skipt út fram til ársins 2017 og þar sem aðgerðin kostar aðeins um 250 milljónir punda mun hún borga sig upp á fyrsta ári. Auk fjárhagslegs sparnaðar er aðgerðinni ætlað að minnka álagið á raforkukerfi Indlands þar sem áætlað er að eftirspurn eftir raforku muni aukast um 60% árlega næstu 5 ár. LED-ljós nýta orku mun betur en bæði hefðbundnar ljósaperur og flúrperur auk þess sem þær endast um 50 sinnum lengur en hefðbundnar perur og um 8-10 sinnum lengur en flúrperur.
(Sjá frétt EDIE 2. september).