Í nýrri könnun dönsku upplýsingamiðstöðvarinnar um umhverfi og heilsu kom í ljós að 11 tannkremstegundir af 57 sem skoðaðar voru, innihéldu parabena sem taldir eru geta raskað hormónastarfsemi líkamans. Parabenar hafa verið notaðir sem rotvarnarefni í ýmsar snyrtivörur, en óleyfilegt er að nota nokkra þeirra í snyrtivörur fyrir börn undir þriggja ára aldri. Tvær tannkremstegundir innihéldu parabena af þessum bannlista, þ.e.a.s. Viofluor Mint Gel og Sensodyne Rapid. Til að forðast parabena í tannkremi er ráðlegt að kaupa Svansmerkt tannkrem eða lesa innihaldslýsinguna vandlega áður en kaupin eru gerð.
(Sjá frétt á forbrugerkemi.dk 4. janúar).