Kostnaður við að lágmarka losun gróðurhúsalofttegunda getur skilað sér í sparnaði í heilbrigðiskerfinu ef marka má nýja rannsókn frá Tækniháskólanum í Massachusetts (MIT). Lægri tíðni astma og annarra kvilla sem tengjast loftmengun eru meðal algengra jákvæðra aukaverkana af aðgerðum sem ætlað er að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, þar sem slíkar aðgerðir leiða gjarnan jafnframt til samdráttar í losun annarra efna og bæta þannig loftgæði. Niðurstöður rannsóknarinnar benda til að sparnaður í heilbrigðiskerfinu vegna lægri sjúkrakostnaður og fleiri þátta sem tengjast betri loftgæðum geti numið allt að tíföldum kostnaði stjórnvalda vegna loftslagsaðgerða. Rannsóknin gefur einnig til kynna að aðgerðir sem beinast að losun gróðurhúsalofttegunda geti bætt loftgæði jafn mikið eða meira en aðgerðir sem beinast sérstaklega að bættum loftgæðum, enda hafi aukin áhersla á minni notkun jarðefnaeldsneytis sjálfkrafa í för með sér minni losun svifryks og lækkaðan styrk yfirborðsósons og fleiri heilsuskaðlegra efna.
(Sjá frétt Science Daily 24. ágúst).