Miklar vonir eru bundnar við nýja tækni til að framleiða eldsneyti úr koltvísýringi með aðstoð sólarljóssins, en hópur vísindamanna undir stjórn Heriot-Watt háskólans í Edinborg vinnur að þessu. Hópurinn fékk nýlega styrk upp á 1,2 milljónir sterlingspunda (um 226 millj. ísl. kr.) til að auka skilvirkni í framleiðslunni og gera hana samkeppnishæfa á markaði. Afurðin úr ferlinu getur t.d. verið metan eða metanól, og ef vel gengur ætti þetta að geta minnkað kolefnislosun út í andrúmsloftið um 700 milljón tonn á ári, sem er meira en öll árleg losun Bretlands.
(Sjá frétt EDIE í gær).
Nú væri áhugavert að vita hversu miklu betur þessir bílar koma út í lífsferilsgreiningu (LCA) miðað við venjulegir bílar og miðað við að ferðast sé innanbæjar með virkum hætti þeas gangandi, skokkandi, á reiðhjóli og í almenningssamgöngum 🙂
Bílarnir eru væntanlega lítið frábrugðnir venjulegum bílum og ættu því að koma mjög vel út úr þeim samanburði. Hins vegar geta þeir varla keppt við göngu, skokk, hjólaferðir og almenningssamgöngur innanbæjar að öðru óbreyttu, að því gefnu m.a. að almenningsfarartækin séu vel nýtt og gangi fyrir svipuðum orkugjöfum. Umhverfislegur ávinningur ræðst þá í reynd af því hvaða samgöngumáta „nýju bílarnir“ leysa af hólmi.
Svo er spurning hvort við þurfum ekki frekar að nota svoleiðis tækni til að rækta mat eða mögulega fóður, því annars mun framleiðslan virka til að lækka verð á olíu sem fer í iðnaðaráburð og til að knýja landbúnaðarvélar sem eru notaðar í matvælaframleiðslu.