Svansmerktar íbúðir í Kaupmannahöfn fá Óskarsverðlaun byggingariðnaðarins

MIPIM_160Verktakafyrirtækið NCC tók fyrir helgi við MIPIM-byggingarverðlaununum fyrir Svansmerktar íbúðir sem fyrirtækið hefur byggt við Krøyers Plads í Christianshavn í Kaupmannahöfn. Verðlaunin eru veitt í Cannes einu sinni á ári og eru oft kölluð Óskarsverðlaun byggingariðnaðarins. NCC fékk verðlaun í flokknum „Þróun íbúðahverfis“ bæði fyrir áherslur sínar á sjálfbærni verkefnisins og arkitektúr, en meðal keppinautanna voru verkefni frá Dubai, Sydney og Stavanger.
(Sjá frétt NCC 13. mars).

Áskorun um vottuð opinber innkaup

modupp_puff_362Helstu umhverfisvottunarstofur í Svíþjóð hafa skorað á ríki og sveitarfélög að sjá til þess að helmingur opinberra innkaupa verði annað hvort umhverfis- eða siðgæðisvottaður af þriðja aðila fyrir árið 2020. Nú þegar hafa sveitarfélögin Örebro, Eskilstuna og Malmö tekið áskoruninni enda líta þau á vistvæna innkaupastefnu hins opinbera sem mikilvægan þátt í að sýna íbúum gott fordæmi. Áskorunin var gefin út af sjö helstu umhverfis- og siðgæðismerkingum Svíþjóðar, þ.e. Norræna svaninum, Umhverfismerki ESB, Bra Miljöval, Fairtrade, Krav, MSC og TCO Certified. Áskorunin er leið samtakanna til að benda á að nú sé tími til kominn fyrir opinbera geirann að nútímavæða innkaup sín og stuðla að því að Svíþjóð nái innlendum og alþjóðlegum markmiðum í umhverfisvernd og útrýmingu fátæktar. Opinberir aðilar í Svíþjóð kaupa vörur og þjónustu árlega fyrir um 600 milljarða sænskra króna (um 10.000 milljarða ísl. kr.), þannig að aukin áhersla á vottaðar vörur getur haft mikil áhrif á markaðinn.
(Sjá frétt Svansins í Svíþjóð 4. júní).

Svanurinn bannar míkróplast

SvanuréturplastNorræna umhverfismerkjanefndin (NMN) hefur ákveðið að hér eftir megi Svansmerktar snyrtivörur ekki innihalda míkróplast, þ.e.a.s. óleysanlegar plastagnir sem brotna seint niður í náttúrunni og eru minni en 1 mm í þvermál. Míkróplast er notað í nokkrum mæli í vörur á borð við „skrúbbkrem“ og tannkrem fyrir hvítar tennur. Agnirnar skolast út í hafið með fráveituvatni og komast þar inn í lífkeðjuna, gjarnan með eiturefnum sem loða við þær. Á sumum hafsvæðum er jafnvel talið að meira sé af míkróplasti en svifi, en þess ber að geta að míkróplast verður einnig til þegar stærri plastagnir brotna niður. Sjaldgæft er að kröfum Svansins sé breytt áður en tími er kominn á reglubundna endurskoðun, en í þessu tilviki þótti tilefnið svo brýnt að ekki væri fært að bíða með breytinguna.
(Sjá frétt á heimasíðu Svansins í Noregi 13. febrúar).

Nýr prentari sem endurnýtir pappírinn

306LP_artikelToshiba hefur sett á markað nýjan Svansmerktan prentara sem getur prentað aftur og aftur á sama pappírinn. Útprentuð blöð sem lokið hafa hlutverki sínu eru þá sett í sérstaka skúffu í prentaranum í stað þess að fleygja þeim. Þar er letrið fjarlægt með því að hita blöðin, auk þess sem sléttað er úr blöðunum áður en prentað er á þau á nýjan leik. Galdurinn á bak við þetta liggur í tónernum sem notaður er í prentarann. Með þessari nýju tækni er hægt að draga verulega úr pappírsnotkun og losun gróðurhúsalofttegunda.
(Sjá frétt á heimasíðu Svansins í Svíþjóð 22. janúar).

Svansmerktur jólapappír loks fáanlegur í Noregi

Svansmerktur jólapappír 160Nú geta norskir neytendur í fyrsta sinn keypt Svansmerktan jólapappír, en hafin er framleiðsla á slíkum pappír í prentsmiðjunni Grøset. Svansmerkið tryggir að pappírinn uppfylli gæðakröfur og að í honum séu engin skaðleg litarefni eða yfirborðsefni. Þetta þýðir jafnframt að flokka má pappírinn með öðrum pappír til endurvinnslu, en venjulegur jólapappír er yfirleitt ónothæfur til slíks vegna efnainnihalds o.fl.
(Sjá frétt á heimasíðu Svansins í Noregi 6. desember).

Fyrsta Svansmerkta viðbyggingin

Viðbygging SvanurinnÞrjátíu íbúða viðbygging við hálfrar aldar gamalt tveggja hæða hús í Sandviken í Svíþjóð verður fyrsta Svansmerkta viðbyggingin á Norðurlöndunum. Fyrstu viðmiðunarreglur Svansins fyrir byggingar tóku gildi 2005, en á síðasta ári var gildissviðið útvíkkað þannig að reglurnar næðu líka til viðbygginga. Svansmerkt viðbygging ætti í flestum tilvikum að vera ódýrari í rekstri en aðrar slíkar byggingar, þar sem Svanurinn gerir miklar kröfur um orkunýtingu, auk krafna um val á byggingarefnum o.m.fl. Í húsinu í Sandviken er t.d. notaður varmaskiptir til að nýta hitann í frárennslisvatninu. Húsið sem byggt er við þarf ekki að standast kröfur Svansins, en hins vegar gilda kröfurnar um öll sameiginleg rými. Íbúarnir í eldri hlutanum njóta því einnig góðs af.
(Sjá frétt á heimasíðu Svansins í Svíþjóð í gær).

Vörumst hormónaraskandi efni

Barn í kerru IMSFólk ætti að kaupa Svansmerktar vörur, lofta vel út og þvo föt og leikföng áður en þau eru tekin í notkun. Þetta eru ráðleggingar dönsku upplýsingamiðstöðvarinnar um umhverfi og heilsu (IMS) að loknum fræðslufundi um hormónaraskandi efni sem haldinn var í síðustu viku. Löggjöf sem ver neytendur gegn þessum efnum er í stöðugri þróun, en þeir sem vilja vera fyrri til geta gert ýmislegt til við verja sig og sína. Á fundinum kom m.a. fram að efni sem berast inn í líkamann á fósturskeiði geti valdið krabbameini síðar á lífsleiðinni.
(Sjá frétt á heimasíðu IMS 4. október).

Fyrstu Svansmerktu hestavörurnar

Hestar Svanen DKNú er í fyrsta sinn hægt að kaupa Svansmerktar hreinlætisvörur fyrir hesta, en fyrr í þessum mánuði fékk fyrirtækið Nathalie Horse Care í Danmörku leyfi til að merkja nokkrar af framleiðsluvörum sínum með Norræna svaninum. Svansmerkið tryggir að vörurnar séu lausar við parabena, ilmefni og önnur efni sem talin eru hormónaraskandi eða geta valdið ofnæmi. Í þessari nýju Svansmerktu vörulínu má m.a. finna hestasjampó af ýmsu tagi, þ.m.t. flösusjampó og sérstakt sjampó fyrir íslenska hesta.
(Sjá frétt á heimasíðu Svansins í Danmörku 5. september).

Svansmerktar byggingarvörur í sókn

Haven SvanenEftirspurn eftir umhverfismerktum byggingarvörum fer ört vaxandi í Danmörku, en hingað til hefur umhverfisvitund við innkaup einskorðast að mestu við dagvöruverslanir. Til marks um þessa þróun er að sala á umhverfismerktum garðvörum hefur þrefaldast á fjórum árum. Meðal annars hefur orðið mikil söluaukning í umhverfismerktu hitameðhöndluðu timbri og vörum úr slíku timbri. Hitameðhöndlunin kemur í stað fúavarnar og byggir að grunni til á aldagamalli aðferð sem norrænir víkingar beittu á sínum tíma.
(Sjá frétt á heimasíðu Svansins í Danmörku 2. apríl).

Konur grænni en karlar

Kvinner tenker grøntNorskar konur hugsa meira um umhverfið en karlkyns landar þeirra ef marka má reglubundna neytendakönnun sem Respons Analyse gerði fyrir Svaninn í Noregi. Sem dæmi um þetta má nefna að 57% kvenna svipast um eftir Svansmerkinu þegar þær kaupa inn, en aðeins 39% karla. Konur eru einnig líklegri en karlar til að flokka úrgang og sniðganga einnotavörur. Í þeim þjóðfélagshópi sem hugsar mest um umhverfismál eru konur í miklum meirihluta.
(Sjá frétt á heimasíðu Svansins í Noregi 8. mars).