Norræna umhverfismerkjanefndin (NMN) hefur ákveðið að hér eftir megi Svansmerktar snyrtivörur ekki innihalda míkróplast, þ.e.a.s. óleysanlegar plastagnir sem brotna seint niður í náttúrunni og eru minni en 1 mm í þvermál. Míkróplast er notað í nokkrum mæli í vörur á borð við „skrúbbkrem“ og tannkrem fyrir hvítar tennur. Agnirnar skolast út í hafið með fráveituvatni og komast þar inn í lífkeðjuna, gjarnan með eiturefnum sem loða við þær. Á sumum hafsvæðum er jafnvel talið að meira sé af míkróplasti en svifi, en þess ber að geta að míkróplast verður einnig til þegar stærri plastagnir brotna niður. Sjaldgæft er að kröfum Svansins sé breytt áður en tími er kominn á reglubundna endurskoðun, en í þessu tilviki þótti tilefnið svo brýnt að ekki væri fært að bíða með breytinguna.
(Sjá frétt á heimasíðu Svansins í Noregi 13. febrúar).