Fyrsta umbúðalausa verslunin á Norðurlöndunum verður opnuð í Kaupmannahöfn á næstu vikum, en búðin er fjármögnuð með hópfjármögnun (e. crowdfunding). Hingað til hefur yfirleitt aðeins verið hægt að kaupa þurrvöru svo sem grjón, kornmeti o.þ.h. án umbúða, en nýja verslunin mun einnig selja vörur á borð við hunang, vín, sápu og matarolíu án umbúða. Viðskiptavinir taka þá margnotaumbúðir með sér að heiman eða taka þátt í skilagjaldskerfi búðarinnar þar sem þeir geta keypt flösku og skilað henni fyrir hreina flösku við næstu heimsókn. Árlega falla til um 156 kg af umbúðaúrgangi á hvern íbúa innan ESB og er markmið verslunarinnar að lækka þessa tölu. Um leið er gert ráð fyrir að matarsóun minnki með hentugri stærðareiningum, auk þess sem hægt verður að lækka kílóverð lífrænna vara með því að selja þær í stærri einingum.
(Sjá frétt Aktuell Hållbarhet í dag).
Greinasafn fyrir merki: lífrænt
Sjálfbærni í brennidepli á NorthSide tónlistarhátíðinni
Um 80% af öllum mat og rúmlega 50% af öllum kranabjór sem seldur var í sölubásum á NorthSide tónlistarhátíðinni í Árósum sl. sumar var lífrænt vottað auk þess sem meira en helmingur þess úrgangs sem féll til á hátíðinni var flokkaður til efnisendurvinnslu. Mikil áhersla hefur verið lögð á að auka sjálfbærni viðburðarins með sérstakri áherslu á orkunýtingu, endurnýtingu, úrgangsflokkun og lífrænar matvörur. Aðstandendur hátíðarinnar segja að kröfurnar verði enn strangari á næsta ári, enda sé stefnt að því að allur matur og drykkur verði lífrænt vottaður og að hátíðin verði úrgangslaus (þ.e.a.s. að enginn blandaður úrgangur falli til).
(Sjá frétt Økologisk landsforening 11. janúar)
Sjöföldun í útflutningi á lífrænum vörum frá Danmörku
Útflutningur á lífrænt vottuðum vörum frá Danmörku hefur aukist um 12% á einu ári, en árið 2014 var verðmæti þessa útflutnings samtals um 1.721 milljón danskra króna (um 32,5 milljarðar ísl. kr.). Útflutningurinn hefur sjöfaldast á síðustu 10 árum. Að sögn markaðsstjóra samtakanna Økologisk Landsforening má rekja aukna sölu til þeirrar miklu reynslu af lífrænni ræktun sem byggst hefur upp í Danmörku og þess að danskir framleiðendur bjóða oft upp á vörur og vöruflokka sem ekki eru framleiddir lífrænt í innflutningslöndunum. Stærstu vöruflokkarnir eru mjólkurvörur og egg, en þessir vöruflokkar eru samtals um 51% lífræns útflutnings. Lífrænt vottaðar tilbúnar matvörur, svo sem frosið grænmeti og hafragrautur, hafa einnig náð miklum vinsældum. Þýskaland er stærsta innflutningslandið en þangað fara um 48% af þeim lífrænu vörum sem fluttar eru út frá Danmörku.
(Sjá frétt á heimasíðu Økologisk Landsforening 7. desember).
Varnarefnaleifar í meira en helmingi innfluttra ávaxta og grænmetis
Varnarefnaleifar eru til staðar í 73% ávaxta og 52% grænmetis sem framleitt er í löndum Evrópusambandsins og selt á dönskum markaði, að því er fram kemur í nýrri skýrslu Matvælastofnunar Danmerkur (Fødevarestyrelsen). Hlutfallið er nokkru lægra (69% og 46%) í ávöxtum og grænmeti frá löndum utan sambandsins og enn lægra (45% og 25%) í dönskum ávöxtum og grænmeti, Styrkur varnarefna í grænmeti og ávöxtum er þó sjaldan yfir viðmiðunarmörkum. Hæst er þetta hlutfall í grænmeti frá löndum utan ESB, eða um 4%. Þessar niðurstöður byggja á 2.510 sýnum sem tekin voru úr umræddum vörum. Þar af voru 179 sýni úr lífrænum vörum, en þar fundust engar varnarefnaleifar.
(Sjá frétt á heimasíðu Fødevarestyrelsen í dag).
Öll bómull hjá IKEA orðin „sjálfbærari“
Öll bómull sem húsgagnarisinn IKEA notar í vörur sínar stenst nú kröfur samtakanna Better Cotton Initiative, en að eigin sögn er IKEA fyrsti smásöluaðilinn sem nær þessu markmiði. Better Cotton Initiative var sett á stofn árið 2010 með þáttöku IKEA, WWF og fleiri aðila með það að markmiði að draga úr neikvæðum áhrifum bómullarræktar á umhverfi og samfélag. Upphaflega voru 500 bómullarræktendur í Pakistan með í samstarfinu, en það nær nú til 110.000 ræktenda. Til að uppfylla kröfur samtakanna þarf að draga úr efnanotkun, nýta vatn betur og sækja námskeið um umhverfismál, vinnuumhverfi o.fl. Í fréttatilkynningu frá IKEA kemur fram að umrædd bómull sé „sjálfbærari“ en flest önnur bómull, en hún uppfylli þó ekki kröfur lífrænnar vottunar. Markaðshlutdeild lífrænt vottaðrar bómullar er aðeins um 1% og því nær útilokað fyrir stóra aðila að nýta hana eingöngu sem hráefni í vörur sínar.
(Sjá frétt Miljöaktuellt 16. nóvember).
Eingöngu lífrænt hveiti í hillunum hjá Irma
Framvegis mun danska verslunarkeðjan Irma eingöngu selja lífrænt hveiti, en hlutdeild lífræns hveitis í heildarhveitisölunni var áður kominn upp í 87%. Ákvörðun Irma byggir m.a. á því viðhorfi stjórnenda keðjunnar að lífrænt vottað hveiti sé bæði bragðbetra og betra í bakstur en annað hveiti, auk þess sem umhverfisáhrifin eru minni. Samanlögð markaðshlutdeild lífrænna matvæla hjá Irma nálgast nú 30%, sem er um fjórfalt hærra hlutfall en landsmeðaltalið í Danmörku. Irma hefur sett sér það markmið að þetta hlutfall verði orðið 50% árið 2025. Hveiti er ekki fyrsta fæðutegundin sem nú fæst eingöngu lífræn hjá Irma, því að í sumar úthýsti keðjan gulrótum og bönunum sem ekki eru með lífræna vottun.
(Sjá frétt á heimasíðu Økologisk Landsforening í gær).
Sala á lífrænum matvælum 35% meiri en í fyrra
Í Danmörku hefur sala á lífrænt vottuðum ávöxtum og grænmeti aukist um 35% það sem af er árinu miðað við sama tíma í fyrra. Salan er nú orðin fimmfalt meiri en hún var fyrir 10 árum. Einstakar verslunarkeðjur, þ.m.t. Irma, eru hættar að selja tilteknar tegundir af grænmeti og ávöxtum sem ekki eru með lífræna vottun. Að sögn talsmanns Irmu hefur heildarsala á gulrótum aukist þar um 20% frá því að óvottuðum gulrótum var úthýst þaðan í síðasta mánuði. Dansk Supermarked bauð í fyrsta sinn upp á lífrænt vottað grænkál fyrir ári síðan. Vottaða grænkálið hefur náð þvílíkum vinsældum að óvottað grænkál er ekki lengur til sölu í verslunum keðjunnar.
(Sjá frétt á heimasíðu Økologisk Landsforening 3. september).
Gulrótum og bönunum úr hefðbundinni ræktun úthýst hjá Irma
Um miðjan þennan mánuð hætti danska verslunarkeðjan Irma að selja gulrætur og banana sem ekki eru með lífræna vottun. Keðjan hefur sett sér það markmið að árið 2025 verði markaðshlutdeild lífrænnar matvöru komin upp í 50% í verslunum keðjunnar. Sala á lífrænum matvörum jókst um 10% á fyrri hluta þessa árs samanborið við sama tíma í fyrra og nálgast nú 30% af allri matvörusölunni. Óvottaðar gulrætur og bananar voru farin að seljast svo illa að það var ekki talið svara kostnaði að halda áfram að bjóða kaupendum þessar vörur. Sala á lífrænt vottuðum bönunum var komin í 92% af heildinni og fyrir gulrætur var talan komin í 85%.
(Sjá frétt á heimasíðu Økologisk Landsforening 10. ágúst).
Danir framtíðarinnar kaupa 80% lífrænt
Lífrænar matvörur verða í miklum meirihluta í innkaupakörfum danskra neytenda í framtíðinni ef marka má niðurstöður úr athugun á neysluvenjum fólks sem flokkast sem brautryðjendur eftir aðferðafræði sem fyrirtækið Firstmove hefur þróað. Um 3% neytenda falla í þennan flokk og meðal þessa fólks eru lífræn matvæli komin í um 80% af innkaupunum. Þetta þykir gefa góða vísbendingu um þróun markaðarins á næstu árum.
(Sjá frétt á heimasíðu Økologisk Landsforening 29. maí).
Sala á Fairtrade-vörum í Svíþjóð jókst um 37% milli ára
Sala á Faitrade-vottuðum vörum jókst um 37% í Svíþjóð milli áranna 2013 og 2014 samkvæmt markaðskönnun Fairtrade-samtakanna. Sé litið á fjóra stærstu vöruflokkana sést að sala á bönunum jókst um 95% milli ára, sala á víni um 42%, sala á blómum um 40% og sala á kaffi um 24%. Sala á Faitrade-vottuðum vörum í Svíþjóð nemur nú um 2,7 milljörðum sænskra króna á ári (um 42 milljörðum ísl. kr.). Aukin sala á Fairtrade-vörum helst í hendur við aukna eftirspurn eftir lífrænt vottuðum vörum, en um 65% af Fairtrade-vörunum sem seldar voru í Svíþjóð 2014 voru einnig með lífræna vottun. Tölurnar gefa til kynna að neytendur leggi æ meira áherslu á sjálfbæran uppruna vöru og að bændum í þróunarlöndunum séu tryggðar ásættanlegar vinnuaðstæður.
(Sjá frétt sænsku Faitrade samtakanna 23. apríl).