Eingöngu lífrænt hveiti í hillunum hjá Irma

indkoeb-mel_morgenmadFramvegis mun danska verslunarkeðjan Irma eingöngu selja lífrænt hveiti, en hlutdeild lífræns hveitis í heildarhveitisölunni var áður kominn upp í 87%. Ákvörðun Irma byggir m.a. á því viðhorfi stjórnenda keðjunnar að lífrænt vottað hveiti sé bæði bragðbetra og betra í bakstur en annað hveiti, auk þess sem umhverfisáhrifin eru minni. Samanlögð markaðshlutdeild lífrænna matvæla hjá Irma nálgast nú 30%, sem er um fjórfalt hærra hlutfall en landsmeðaltalið í Danmörku. Irma hefur sett sér það markmið að þetta hlutfall verði orðið 50% árið 2025. Hveiti er ekki fyrsta fæðutegundin sem nú fæst eingöngu lífræn hjá Irma, því að í sumar úthýsti keðjan gulrótum og bönunum sem ekki eru með lífræna vottun.
(Sjá frétt á heimasíðu Økologisk Landsforening í gær).

Sala á lífrænum matvælum 35% meiri en í fyrra

ImageGenÍ Danmörku hefur sala á lífrænt vottuðum ávöxtum og grænmeti aukist um 35% það sem af er árinu miðað við sama tíma í fyrra. Salan er nú orðin fimmfalt meiri en hún var fyrir 10 árum. Einstakar verslunarkeðjur, þ.m.t. Irma, eru hættar að selja tilteknar tegundir af grænmeti og ávöxtum sem ekki eru með lífræna vottun. Að sögn talsmanns Irmu hefur heildarsala á gulrótum aukist þar um 20% frá því að óvottuðum gulrótum var úthýst þaðan í síðasta mánuði. Dansk Supermarked bauð í fyrsta sinn upp á lífrænt vottað grænkál fyrir ári síðan. Vottaða grænkálið hefur náð þvílíkum vinsældum að óvottað grænkál er ekki lengur til sölu í verslunum keðjunnar.
(Sjá frétt á heimasíðu Økologisk Landsforening 3. september).

Gulrótum og bönunum úr hefðbundinni ræktun úthýst hjá Irma

ImageGenUm miðjan þennan mánuð hætti danska verslunarkeðjan Irma að selja gulrætur og banana sem ekki eru með lífræna vottun. Keðjan hefur sett sér það markmið að árið 2025 verði markaðshlutdeild lífrænnar matvöru komin upp í 50% í verslunum keðjunnar. Sala á lífrænum matvörum jókst um 10% á fyrri hluta þessa árs samanborið við sama tíma í fyrra og nálgast nú 30% af allri matvörusölunni. Óvottaðar gulrætur og bananar voru farin að seljast svo illa að það var ekki talið svara kostnaði að halda áfram að bjóða kaupendum þessar vörur. Sala á lífrænt vottuðum bönunum var komin í 92% af heildinni og fyrir gulrætur var talan komin í 85%.
(Sjá frétt á heimasíðu Økologisk Landsforening 10. ágúst).