Mikið magn skaðlegra efna er notað í framleiðslu á fötum og öðrum textílvörum og hluti efnanna er enn til staðar þegar neytendur fá vörurnar í hendur. Í nýrri skýrslu sænska efnaeftirlitsins (Kemikalieinspektionen) kemur m.a. fram að við framleiðslu á einum stuttermabol séu notuð um 3 kíló af efnum. Meðal efna sem finnist í endanlegri vöru megi nefna litarefni og efni sem vinna gegn myglu og svitalykt, auk bakteríudrepandi efna sem geta stuðlað að sýklalyfjaónæmi. Rúm 10% efnanna sem greint er frá í skýrslunni teljast skaðleg fólki og um 5% eru talin geta haft mjög skaðleg áhrif á umhverfið. Stofnunin telur þörf á að skerpa reglur um efnanotkun í textíliðnaði, enda er þar enn sem komið er lítið um takmarkanir. Þá þurfi að bæta upplýsingaflæðið í vörukeðjunni.
(Sjá fréttatilkynningu Kemikalieinspektionen 3. október).