Vísindamenn við Queen Mary háskólann í London hafa þróað byltingarkennda aðferð til að framleiða sólfangara úr efnum sem finnast í rækju- og krabbaskeljum. Aðferðin byggir á nanótækni þar sem vatnsvarmakolun (e. hydrothermal carbonisation) er beitt til að framleiða kolefnisskammtadepla (e. carbon quantum dots (CQDs)) úr kítíni og kítósan úr skel. Grunneiningar sólfangaranna eru svo búnar til úr sinkoxíðnanóstöngum sem húðaðar eru með deplunum. Þetta er í fyrsta sinn sem lífmassi er notaður til framleiðslu á sólföngurum, en yfirleitt er notast við dýra málma á borð við rúten. Með þessari nýju aðferð er bæði dregið úr umhverfisáhrifum og kostnaði, þar sem uppistaðan í framleiðslunni eru afgangsefni úr annarri framleiðslu. Vonir standa til að í framtíðinni verði hægt að nota þessa tækni við framleiðslu á nær gegnsæjum sólarorkufilmum í glugga, hleðslutæki fyrir smáraftæki o.fl.
(Sjá frétt EDIE 19. febrúar).
Greinasafn fyrir merki: sólarorka
Sólarplötur hækka fasteignaverð
Sólarplötur á húsþökum geta hækkað verð viðkomandi fasteignar um allt að 15.000 dollara (tæpar 2 millj. ísl. kr.) samkvæmt nýrri skýrslu frá U.S. Department of Energy’s Lawrence Berkeley Laboratory, sem byggð er á upplýsingum um fasteignaviðskipti í 8 ríkjum Bandaríkjanna á tímabilinu 1999-2013. Sólarplötur draga nú þegar úr raforkukostnaði húseigenda sem fjárfesta í slíkum búnaði, en í skýrslunni er bent sérstaklega á langtímasparnaðinn. Fyrirtæki sem selja sólarplötur hafa í auknum mæli leigt búnaðinn út, en þá greiðir húseigandinn mánaðarlegt gjald í stað þess að þurfa að leggja út fyrir stofnkostnaði. Leigður búnaður getur hins vegar lækkað verð fasteignar, þar sem þá þurfa nýir eigendur að taka á sig hærri mánaðarlegan kostnað. Verð fyrir sólarorkubúnað fyrir heimili fer stöðugt lækkandi og hafa vinsældir slíks búnaðs aukist í samræmi við það.
(Sjá frétt Daily Finance 9. febrúar).
Milljörðum sóað í illa staðsett orkuver
Um 100 milljarðar bandaríkjadala (um 13.000 milljarðar ísl. kr.) hefðu sparast á síðustu árum ef stjórnvöld í Evrópu hefðu skipulagt staðsetningar endurnýjanlegra raforkuvera betur, að því er fram kemur í skýrslu sem kynnt var á efnahagsráðstefnunni í Davos í vikunni. Í skýrslunni kemur einnig fram að spara hefði mátt 40 milljarða bandaríkjadala (um 5.000 milljarða ísl. kr.) til viðbótar með aukinni samræmingu og öflugri rafstrengjum milli nágrannalanda. Betra skipulag hefði komið í veg fyrir byggingu sólarorkuvera í sólarlitlum löndum og vindorkuvera á skjólsælum stöðum. Sem dæmi má nefna að Spánn fær um 65% meiri orku frá sólinni en Þýskaland, en þó hefur Þýskaland byggt upp sólarorkuver með 600% meiri afkastagetu en Spánn á síðustu árum.
(Sjá frétt Planet Ark 21. janúar).
Nýtni í sólarsellum komin í 40%
Vísindamenn við Háskólann í Nýja Suður-Wales í Ástralíu hafa hannað sólarsellur með rúmlega 40% nýtni, en hingað til hefur hámarksnýtni í sólarorkuframleiðslu verið um 25-30%. Tæknin byggir á notkun á sérstökum síum sem festar eru á turna í sólarorkuverum, en síurnar fanga ljós af tiltekinni bylgjulengd sem venjulegar sólarsellur ná ekki að nýta. Með þessari nýjung í framleiðslu raforku úr sólarorku er nýtnin orðin tvöföld á við það sem var þegar fyrstu sólarsellurnar voru framleiddar árið 1989.
(Sjá frétt Science Daily 7. desember).
Hjólað á sólarrafhlöðum
Þann 12. nóvember verður fyrsti sólarrafhlöðuhjólastígur heimsins opnaður í úthverfi Amsterdam. Stígurinn er lagður sólarrafhlöðum sem geta framleitt rafmagn sem nægir þremur heimilum. Um er að ræða vinsælan hjólastíg sem um 2.000 manns nýta sér daglega. Til að byrja með verða lagðir 70 m af sólarstíg, en stígurinn verður síðan lengdur í 100 m árið 2016. Framkvæmdin kostar um 3 milljónir evra (um 460 millj. ísl. kr.) og er fjármögnuð af borgaryfirvöldum. Þar sem ekki er hægt að stilla sólarrafhlöðurnar í stígunum eftir stöðu sólar framleiða þær um 30% minna rafmagn en sólarrafhlöður á þökum. Enga að síður telja aðstandendur mikla möguleika leynast í tækninni þar sem byggt er við innviði sem nú þegar eru til staðar. TNO rannsóknarstofnunin, sem þróað hefur þessa tækni, skoðar nú möguleikana á að leggja sólarrafhlöður í vegi og nota raforkuna fyrir umferðarljós og rafbíla.
(Sjá frétt the Guardian 5. nóvember).
Bjart framundan í nýtingu sólarorku
Sólarorka gæti vegið þyngst allra orkugjafa í raforkuframleiðslu heimsins árið 2050 samkvæmt nýrri skýrslu Alþjóða orkumálastofnunarinnar (IEA), en horfur eru á að hlutur sólarorkunnar verði þá kominn í u.þ.b. 37%. Mikil þróun hefur verið í nýtingu sólarorku síðustu ár, en hlutdeild hennar í raforkuframleiðslunni er þó enn innan við 1%. Verð á tæknibúnaði til nýtingar sólarorku fer nú hríðlækkandi og þannig hafa opnast alveg nýir möguleikar á þessu sviði að mati IEA.
(Sjá frétt PlanetArk í gær).
Enn fjárfestir Google í endurnýjanlegri orku
Google tilkynnti í dag að fyrirtækið muni leggja 145 milljónir bandaríkjadala (um 17 milljarða ísl. kr.) í nýtt 82 MW sólarorkuver í Kaliforníu, en þetta mun vera sautjánda fjárfesting fyrirtækisins í endurnýjanlegri orku frá árinu 2010. Um er að ræða uppsetningu á sólarrafhlöðum á um 300 hektara landsvæði í Kernsýslu þar sem áður var olíu- og gasvinnsla og mun verið geta séð um 10.000 heimilum í Kaliforníu fyrir raforku. Um 35% af allri orkunotkun Google er nú af endurnýjanlegum uppruna.
(Sjá frétt EDIE í dag).
Útprentanlegar sólarrafhlöður vekja athygli
Ástralskir vísindamenn hafa þróað „sólarblek“ sem breytir sólarljósi í raforku. Þeir segja stórfyrirtæki hafa mikinn áhuga á tækninni og telja stutt í að hægt verði að hefja framleiðslu. Sólarblekið er prentað á sveigjanleg efni (t.d. plast) sem hægt er að setja upp hvar sem er til að fanga sólarorkuna. Til dæmis væri hægt að hlaða snjallsíma og spjaldtölvur með því að líma slíka filmu á tækin, en einnig væri hægt að líma filmur á glugga og aðra stóra fleti til að framleiða meiri raforku. Sólarblekið er ódýrt í framleiðslu, en orkunýtnin er enn sem komið er aðeins 1/10 af því sem gerist í hefðbundnum sólarrafhlöðum. Vísindamennirnir telja að í framtíðinni muni nýtnin aukast og notkunarmöguleikar bleksins þar með.
(Sjá frétt the Guardian í dag).
Hröð uppsveifla í endurnýjanlegri orku
Um 22% af allri framleiddri orku í heiminum kemur nú frá endurnýjanlegum orkugjöfum að því er fram kemur í nýjustu samantekt Alþjóðaorkumálastofnunarinnar (IEA). Meiri vöxtur er í greininni en nokkru sinni fyrr og námu fjárfestingar í henni um 150 milljörðum breskra punda árið 2013 (um 29 þús. milljörðum ísl. kr.). Á síðustu árum hafa stjórnvöld margra ríkja endurskoðað og dregið úr hagrænum hvötum sem hafa verið ein helsta undirstaða uppbyggingar í greininni. IEA telur þó að hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa í orkuframleiðslu heimsins ætti að geta náð 26% árið 2020, enda fer stofn- og rekstrarkostnaður lækkandi. Um leið bendir stofnunin á að 27% markmiðið sem alþjóðasamfélagið hefur sett sér fyrir 2030 sé ekki nógu metnaðarfullt. Hlutfallið verði komið í 30% árið 2030 ef svo heldur sem horfir.
(Sjá frétt the Guardian í dag).
Mikil fjölgun starfa við framleiðslu á endurnýjanlegri orku
Um 6,5 milljón manns störfuðu beint eða óbeint við framleiðslu á endurnýjanlegri orku árið 2013, en það er um 14% aukning frá árinu 2012 samkvæmt skýrslu Alþjóðastofnunarinnar um endurnýjanlega orku (IRENA) sem kom út í mánuðinum. Sólarrafhlöður skapa flest störfin, en samtals vinna nú 2,27 milljónir við framleiðslu, uppsetningu og viðhald á slíkum búnaði. Rekja má fjölgun starfa í þeirri grein að miklu leyti til aukinnar áherslu á nýtingu sólarorku í Kína. Jafnframt hefur verð á sólarrafhlöðum lækkað verulega vegna tæknilegra framfara og eftirspurn því aukist. Um 1,45 milljónir starfa við framleiðslu lífeldsneytis og 0,83 milljónir við vindorku.
(Sjá frétt the Guardian 12. maí).