Sviss stendur sig best í umhverfismálum

Sviss stendur sig þjóða best í umhverfismálum ef marka má nýja skýrslu Yale-háskólans um umhverfisvísitölur þjóða (Environmental Performance Index (EPI)) sem gefin er út annað hvort ár og birt í tengslum við fund Alþjóðaefnahagsráðsins (World Economic Forum) í Davos. Há einkunn Sviss (87,42) endurspeglar góða frammistöðu á ýmsum sviðum, einkum þó hvað varðar loftgæði og loftslagsvernd. Frakkland, Danmörk, Malta og Svíþjóð raða sér í næstu sæti, en Ísland vermir 11. sætið og hefur fallið úr 2. sæti þar sem það var statt fyrir tveimur árum. EPI-skýrslan er nú birt í 10. sinn og í henni er 180 þjóðum raðað eftir frammistöðu í 24 atriðum, auk þess sem lagt er mat á þróun mála í hverju landi um sig síðustu árin. Almennt hefur staðan á heimsvísu batnað í málum á borð við neysluvatn og hreinlæti, en á öðrum sviðum er mikilla úrbóta þörf. Léleg loftgæði eru stærsta ógnin við lýðheilsu eins og staðan er í dag.
(Sjá frétt á heimasíðu Yale-háskólans 23. janúar).

Milljörðum sóað í illa staðsett orkuver

Solar panels are seen under a cloudy sky in Bad HersfeldUm 100 milljarðar bandaríkjadala (um 13.000 milljarðar ísl. kr.) hefðu sparast á síðustu árum ef stjórnvöld í Evrópu hefðu skipulagt staðsetningar endurnýjanlegra raforkuvera betur, að því er fram kemur í skýrslu sem kynnt var á efnahagsráðstefnunni í Davos í vikunni. Í skýrslunni kemur einnig fram að spara hefði mátt 40 milljarða bandaríkjadala (um 5.000 milljarða ísl. kr.) til viðbótar með aukinni samræmingu og öflugri rafstrengjum milli nágrannalanda. Betra skipulag hefði komið í veg fyrir byggingu sólarorkuvera í sólarlitlum löndum og vindorkuvera á skjólsælum stöðum. Sem dæmi má nefna að Spánn fær um 65% meiri orku frá sólinni en Þýskaland, en þó hefur Þýskaland byggt upp sólarorkuver með 600% meiri afkastagetu en Spánn á síðustu árum.
(Sjá frétt Planet Ark 21. janúar).

Gazprom og GAP kosin verstu fyrirtæki í heimi

Gazprom160Rússneski olíu- og gasrisinn Gazprom og bandaríski fataframleiðandinn GAP fengu skammarverðlaunin Public Eye Awards þetta árið, en verðlaunin eru veitt árlega á heimsviðskiptaráðstefnunni í Davos þeim fyrirtækjum sem almenningur kýs sem verstu fyrirtæki í heimi. Gazprom fékk 95.277 atkvæði í kjörinu, en á árinu 2013 varð fyrirtækið fyrst til að hefja olíuboranir á Norðurheimskautssvæðinu og tókst strax á fyrstu mánuðunum að brjóta ýmsar reglur um öryggis- og umhverfismál. GAP varð fyrir valinu hjá sérstakri dómnefnd um versta fyrirtækið, en GAP neitað að skrifa undir samkomulag um bindandi reglur um bruna- og öryggismál í fataverksmiðjum í Bangladesh.
(Sjá frétt Miljöaktuellt 23. janúar).

„Miklu miklu verra“

Nicholas-Stern-008Mér skjátlaðist varðandi loftslagsbreytingarnar – þetta er miklu miklu verra“, sagði Nicholas Stern í viðtali sem tekið var á efnahagsráðstefnunni í Davos fyrir helgi. Stern var höfundur skýrslu sem út kom árið 2006 og þótti marka nokkur tímamót í loftslagsumræðunni, þar sem þar var lagt hagfræðilegt mat á áhrif loftslagsbreytinga. Niðurstaða Sterns þótti sláandi á þeim tíma. Fleiri hafa talað tæpitungulaust í Davos, svo sem Jim Yong Kim, nýráðinn forseti Alþjóðabankans. Ef svo heldur sem horfir og meðalhitastig á jörðinni hækkar um allt að 4°C, telur hann að hvarvetna verði barist um vatn og fæðu. Góðu fréttirnar séu hins vegar þær að hægt sé að sveigja hagkerfið inn á rétta braut. Í grænu hagkerfi liggi gríðarleg tækifæri fyrir atvinnulífið.
(Sjá frétt The Guardian 26. janúar).