Um 6,5 milljón manns störfuðu beint eða óbeint við framleiðslu á endurnýjanlegri orku árið 2013, en það er um 14% aukning frá árinu 2012 samkvæmt skýrslu Alþjóðastofnunarinnar um endurnýjanlega orku (IRENA) sem kom út í mánuðinum. Sólarrafhlöður skapa flest störfin, en samtals vinna nú 2,27 milljónir við framleiðslu, uppsetningu og viðhald á slíkum búnaði. Rekja má fjölgun starfa í þeirri grein að miklu leyti til aukinnar áherslu á nýtingu sólarorku í Kína. Jafnframt hefur verð á sólarrafhlöðum lækkað verulega vegna tæknilegra framfara og eftirspurn því aukist. Um 1,45 milljónir starfa við framleiðslu lífeldsneytis og 0,83 milljónir við vindorku.
(Sjá frétt the Guardian 12. maí).